Í frétt Sunday Times segir að sá grunaði sé Abdel-Majed Abdel Bary, 24 ára gamall breskur rappari sem gekk undir listamannsnafninu L Jinny og var tónlist hans meðal annars spiluð á BBC Radio.
Bary yfirgaf fjölskyldu sína í Maida Vale-hverfinu í vesturhluta London á síðasta ári. Er það haft eftir ónafngreindum heimildarmönnum blaðsins innan ríkisstjórnarinnar og lögreglunnar.
Bary birti nýlega mynd af sjálfum sér á Twitter þar sem hann sést halda á afskornu höfði.
Í frétt International Business News segir að faðir hins grunaða komi upprunalega frá Egyptalandi og var háttsettur liðsmaður al-Qaida. Hann var framseldur til Bandaríkjanna árið 2012 vegna gruns um aðild að sprengjuárásunum á sendiráð Bandaríkjanna í Keníu og Tansaníu árið 1998.
Morðið á Foley var tekið upp og síðar birt á YouTube undir heitinu „Skilaboð til Ameríku“. Böðullinn á myndbandinu var grímuklæddur og talaði ensku með breskum hreim.
Menn sem áður hafa verið í haldi IS-liða höfðu sagt manninn vera „Jihad John“. Þeir vissu þó ekkert um raunverulegt nafn mannsins. James Foley, fertugur fréttamaður frá New Hampshire, var rænt af uppreisnarmönnum í norðurhluta Sýrlands í nóvember 2012.