Enski boltinn

Lygilegur sigur Leeds á Man. Utd

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Beckford fagnar marki sínu í dag.
Beckford fagnar marki sínu í dag.

Jermaine Beckford, fyrrum leikmaður Uxbridge og Wealdstone, sá til þess að C-deildarlið Leeds sló Englandsmeistara Man. Utd út úr ensku bikarkeppninni í dag. Það sem meira er þá fór leikurinn fram á heimavelli Man. Utd, Old Trafford.

Úrsltin eru einhver þau óvæntustu í langri sögu keppninnar og stuðningsmenn United munu eflaust seint gleyma Jermaine Beckford.

Eina mark leiksins kom á 19. mínútu en þá missti Wes Brown af Beckford sem kláraði færið sitt vel. Brown átti annars átakanlega lélegan leik í dag og var heppinn að hanga inn á vellinum ofan á öll mistökin sem hann gerði.

Frammistaða leikmanna Leeds í leiknum var mögnuð. Liðið bar enga virðingu fyrir meisturunum, tæklaði þá grimmt og reif síðan kjaft.

Þeir settu meira að segja hápressu á United-liðið nánast allt til enda leiksins.

United skapaði ekki mikið af dauðafærum í leiknum en fékk slatta af hálffærum. Leeds var nálægt því að bæta við mörkum en liðið fékk dauðafæri í síðari hálfleik og aukaspyrna hafnaði í þverslá United-marksins.

Leikurinn var frábær skemmtun og Leeds-liðið uppskar eins og það sáði í þessum leik.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.