Mat var ekki haldið frá Tryggva Jónssyni þegar hann var yfirheyrður á skrifstofu efnahagsbrotadeildar Ríkislögreglustjóra að kvöldi húsleitar hjá Baugi árið 2002. Þetta sagði Sveinn Ingiberg Magnússon lögreglufulltrúi hjá efnahagsbrotadeild Ríkislögreglustjóra þegar settur saksóknari yfirheyrði hann í Héraðsdómi Reykjavíkur nú rétt í þessu.
Sveinn sagði starfsmenn efnahagsbrotadeildarinnar hafa mikla reynslu af yfirheyrslum. Að kvöldi 28. ágúst 2002 hafi hann og Arnar Jensson aðstoðaryfirlögregluþjónn efnahagsbrotadeildarinnar farið með Tryggva á skrifstofu embættisins þar sem yfirheyrslur yfir honum áttu að hefjast að viðstöddum verjanda.
Sveinn staðfesti vitnisburð Arnars frá því í morgun um að rannsókn málsins hafi í engu verið frábrugðin öðrum rannsóknum. Tekið hafi verið jafnt tillit til atriða er vörðuðu sekt og sýknu sakborninga.
Sveinn var spurður út í húsleit í Færeyjum og í Luxemborg og greindi ítarlega frá húsleit í höfuðstöðvum Baugs 28. ágúst.
Nú er komið að verjendum sakborninga að yfirheyra Svein og því ekki ljóst hvort fleiri vitni komist að í dag. Upphafleg áætlun gerði ráð fyrir að 11 manns yrðu yfirheyrð en nokkur vitni voru færð til fyrir daginn í dag. Jónína Benediktsdóttir mætti hins vegar í Héraðsdóm á settum tíma í morgun, en skýrslutöku yfir henni var frestað og hún mætir fyrir dóminn á föstudaginn.