Innlent

Jón Ásgeir yfirheyrður í þrjá daga

Hádegishlé er í aðalmeðferð í Baugsmálinu en hún hófst í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun með vitnisburði Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, forstjóra Baugs. Sérstakur ríkissaksóknari reiknar með að yfirheyra Jón Ásgeir í þrjá daga.

Bæði verjendur og sækjendur lögðu fram ný gögn við upphaf aðalmeðferðar í morgun. Verjendur lögðu fram öllu meiri gögn og lýsti Sigurður Tómas Magnússon, sérstakur ríkissaksóknari, yfir að hann áskildi sér rétt til að kalla Jón Ásgeir aftur fyrir dóm vegna þeirra en ríkissaksóknari ætlar sér annars þrjá daga til að yfirheyra hann.

Fyrst fór töluverður tími í að spyrja Jón Ásgeir almennra spurninga sem allar snertu reglur eða regluleysi innan Baugs á viðskiptum fyrirtækisins við fjárfestingafélagið Gaum, sem er í eigu Baugsfjölskyldunnar. Að því loknu tók ríkissaksóknari að spyrja út í einstakar lánveitingar Baugs til Gaums. Spurningum vegna þriggja ákæruliða, 2.,3 og 4., lauk fyrir hádegi en þar er Jóni Ásgeir gefið að sök að hafa látið Baug veita Gaumi lán samtals að upphæð ríflega 112 milljónir króna þegar Baugur var hlutafélag.

Saksóknari reynir að sanna að þarna hafi verið um ólögleg lán að ræða. Jón Ásgeir hélt því hins vegar fram í dómi í morgun að í öllum tilvikum hafi verið um eðlileg viðskiptalán að ræða, þar sem Gaumur tók á sig upphafsáhættu fyrir Baug í viðskiptum með ný félög. Samanlagt er um að ræða upphæðir á bilinu þrjú til fjögur hundruð milljónir króna, þar sem hæsta upphæðin er 100 milljónir.

Þegar vitnaleiðslum yfir Jóni Ásgeiri er lokið, verða aðrir sakborningar yfirheyrðir fyrir dómi og eftir það er komið af vitnum, sem verða um eitt hundrað. Baugsmálum er því langt í frá lokið.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×