Chelsea er komið í 16-liða úrslit ensku bikarkeppninnar eftir öruggan 3-0 sigur á 1. deildar liði Nottingham Forest á Stamford Bridge í dag. Segja má að Chelsea hafi gengið frá leiknum í fyrri hálfleik en þá skoraði liðið öll mörkin.
Úkraínumaðurinn Andrei Shevchenko virðist vera kominn með aukið sjálfstraust því hann skoraði fyrsta mark Chelsea á 9. mínútu, hans þriðja mark í síðustu tveimur leikjum. Didier Drogba bætti við öðru marki á 18. mínútu en John Obi Mikel skoraði á lokamínútu fyrri hálfleiks.
Fyrr í dag hafði WBA einnig tryggt sér sæti í 16-liða úrslitum með sannfærandi 3-0 útisigri á Wolves. Diomansy Kamara, Kevin Phillips og Zoltan Gera skoruðu mörk WBA í leiknum.