Erlent

Hörðustu bardagar í margar vikur

Einhverjir hörðustu götubardagar í margar vikur hafa geisað síðasta sólarhringinn í Bagdad, höfuðborg Íraks. Óöld ríkir þar og svo virðist sem enginn hafi stjórn á ástandinu. Tveir mánuðir eru síðan heimastjórn Íraka tók við völdum í landinu en hvorki heimastjórnin né bandaríski herinn virðast þó hafa stjórn á ástandinu. Síðasta sólarhringinn hafa tæplega þrjátíu látið lífið og yfir hundrað særst í Bagdad í ýmis konar skærum og bardögum á víð og dreif um borgina. Eitthvert alvarlegasta atvikið átti sér stað eftir að írakskir uppreisnarmenn sprengdu bandarískan brynbíl í loft upp. Fjórir bandarískir hermenn voru fluttir á brott með minniháttar meiðsl en Bandaríkjaher lét ekki þar við sitja heldur sendi árásarþyrlu til að eyðileggja brynbílinn alveg og koma þannig í veg fyrir að uppreisnarmenn kæmust yfir vopn úr honum. Í millitíðinni hafði hins vegar mikill mannfjöldi safnast saman við bílinn til að fagna, bæði uppreisnarmenn og ungir drengir sem höfðu ekki tíma til að koma sér í burtu áður en bandaríska þyrlan gerði árás. Tvö börn létu lífið auk fréttamanns hjá arabísku sjónvarpsstöðinni Al Arabiyya. Hann var að undirbúa frétt þegar sprengjubrot hæfði hann. Hann féll á jörðina með ópum og sagðist vera að deyja. Sjónvarpsstöðin sýndi myndirnar skömmu síðar. Írakskur öfgahópur sem heldur tveimur ítölskum konum í haldi í Bagdad hefur hótað að lífláta þær innan sólarhrings verði ítalskir hermenn í Írak ekki kallaðir heim. Ríkisstjórn Ítalíu segist ekki munu ræða við mannræningjana. Konurnar, sem báðar eru 29 ára gamlar, unnu hjá ítölskum hjálparsamtökum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×