Erlent

Sagði lögreglu frá „stráknum“ strax eftir hvarfið

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Tom Hagen og Anne-Elisabeth Hagen.
Tom Hagen og Anne-Elisabeth Hagen. Vísir/AP

Norski auðjöfurinn Tom Hagen, sem grunaður er um morð eða aðild að morði á eiginkonu sinni, Anne-Elisabeth Hagen, minntist á mann, sérfræðing á sviði rafmynta sem nú er grunaður um aðild að málinu, í yfirheyrslum skömmu eftir að Anne-Elisabeth hvarf í október 2018. Þessu greinir norska dagblaðið VG frá í dag.

Í frétt VG segir að strax daginn eftir að Anne-Elisabeth hvarf hafi Tom Hagen sagt lögreglu frá ungum manni sem þekkti vel til á sviði upplýsingatækni og rafmynta. Hagen kvaðst þá hafa rætt nokkrum sinnum við manninn, sem hann kallaði „strákinn“ í samtölum við lögreglu, að því er fram kemur í frétt VG.

Hagen hafi minnst á manninn í sambandi við eigin áhuga á rafmyntum. Þá kvaðst hann ekki muna nafnið á honum en sagði að tiltekið skyldmenni sitt gæti vitað það. VG segir að lögregla hafi haft uppi á „stráknum“ eftir að hafa rætt við umræddan fjölskyldumeðlim Toms Hagen í nóvember 2018.

VG hefur eftir Svein Holden, verjanda Toms Hagen, að hann viti ekki af hverju umbjóðandi sinn hafi ekki munað nafnið á manninum. Þá vissi hann ekki betur en Tom Hagen hafi síðast átt í samskiptum við manninn löngu áður en Anne-Elisabeth hvarf í lok október 2018. Holden leggur jafnframt áherslu á að Hagen hafi haft frumkvæði að því að ræða um manninn við lögreglu.

Gangar báðir lausir

Áhugi norsku lögreglunnar á rafmynt kviknaði snemma í rannsókninni á hvarfi Anne-Elisabeth eftir að kröfubréf meintra mannræningja fannst á heimili Hagen-hjónanna. Krafan hljóðaði upp á milljónir evra í Monero, órekjanlegri rafmynt.

Tom Hagen var handtekinn grunaður um morðið á eiginkonu sinni í lok apríl. Hann neitar sök og var í síðustu viku látinn laus úr gæsluvarðhaldi.

Maðurinn sem hér um ræðir, rafmyntarsérfræðingur á fertugsaldri, var handtekinn 7. maí, grunaður um að hafa banað Anne-Elisabeth eða átt aðild að morðinu á henni. Tveimur dögum síðar var staðfestum gruni hins vegar breytt og er maðurinn nú grunaður um aðild að grófri frelsissviptingu. Maðurinn neitar sök, segir handtökuna fáránlega og er laus úr haldi.

Í frétt VG segir að rannsókn lögreglu snúi nú að stórum hluta að því að varpa ljósi á samskipti Hagen og mannsins. Þeir hafi kynnst í gegnum sameiginlegan vin fyrir nokkrum árum og hafi rætt sín á milli um að fjárfesta í rafmynt eða fyrirtæki á því sviði. Þeir hafi þannig bæði hist á skrifstofu Hagen og átt símafundi, þó að þeir hafi aldrei ráðist saman í eiginleg viðskipti.

Lögregla gengur nú út frá því að Anne-Elisabeth hafi verið myrt á heimili hjónanna við Sloraveien í Lorenskógi þann 31. október 2018. Ekkert hefur spurst til hennar síðan hún hvarf þennan dag.


Tengdar fréttir

Hagen sleppt úr gæsluvarðhaldi

Tom Hagen hefur verið sleppt úr gæsluvarðhaldi eftir að Hæstiréttur Noregs úrskurðaði gegn lögreglunni um framlengingu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×