Tom Hagen hefur verið sleppt úr gæsluvarðhaldi eftir að Hæstiréttur Noregs úrskurðaði gegn lögreglunni um framlengingu. Neðra dómsstig úrskurðaði í gær að Hagen skyldi sleppt vegna skorts á sönnunargögnum. Hann er grunaður um morð eða aðild að morði á eiginkonu sinni, Anne-Elisabeth Hagen.
Ekkert hefur spurst til Anne-Elisabeth frá 31. október 2018.
Málið var fyrst rannsakað sem mannrán, en lögregla telur nú Tom Hagen hafa sviðsett ránið til að villa um fyrir lögreglunni.
Sjá einnig: Annar maður handtekinn vegna Hagen-málsins
Tom Hagen var handtekinn í lok aprílmánaðar og í kjölfarið úrskurðaður í fjögurra vikna gæsluvarðhald. Lögmannsréttur Eidsivaþing í Noregi úrskurðaði hins vegar í gær að Hagen skyldi sleppt úr gæsluvarðhaldi, vegna ónógra sönnunargagna.
Hæstiréttur hefur nú tekið undir þann úrskurð.

Í samtali við fjölmiðla segir Svein Holden, lögmaður Hagen, að niðurstaðan komi sér ekki á óvart.
Lögreglan hefur rétt á því að handtaka Hagen aftur en samkvæmt NRK veit Holden ekki hvort það standi til. Til þess þyrfti lögreglan mun betri sönnunargögn og sagðist hann ekki hafa áhyggjur af því.