Öruggt hjá Arsenal á Elland Road og sjö stiga for­skot

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Viktor Gyökeres skoraði langþráð deildarmark í dag.
Viktor Gyökeres skoraði langþráð deildarmark í dag. getty/Simon Stacpoole

Arsenal náði sjö stiga forskoti á toppi ensku úrvalsdeildarinnar með 0-4 sigri á Leeds United á Elland Road í dag. Þetta var fyrsti sigur Arsenal í fjórum deildarleikjum.

Arsenal er nú með 53 stig, sjö stigum meira en Manchester City sem mætir Tottenham á morgun.

Martín Zubimendi kom gestunum frá Lundúnum yfir á 27. mínútu þegar hann skallaði fyrirgjöf Nonis Madueke í netið. Ellefu mínútum síðar sló Karl Darlow, markvörður heimamanna, boltann í netið eftir hornspyrnu frá Madueke.

Viktor Gyökeres kom Arsenal í 0-3 þegar hann skoraði eftir fyrirgjöf frá Gabriel Martinelli á 69. mínútu. Þetta var fyrsta deildarmark sænska framherjans í sjö deildarleikjum, eða síðan hann skoraði sigurmark Arsenal gegn Everton, 0-1, 20. desember í fyrra.

Gabriel Jesus skoraði svo fjórða og síðasta mark Arsenal fjórum mínútum fyrir leikslok. Hann sneri sér þá laglega í teignum og skoraði með skoti út við stöng. Lokatölur 0-4, Arsenal í vil.

Leeds er í 16. sæti deildarinnar með 26 stig, sex stigum frá fallsæti.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira