Veður

Ró­leg austan­átt en hvessir á morgun

Atli Ísleifsson skrifar
Hiti verður á bilinu núll til sex stig.
Hiti verður á bilinu núll til sex stig. Vísir/Vilhelm

Kröpp smálægð fyrir vestan land er nú að fjarlægjast og hefur hún dælt skúrum eða éljum inn á Suður- og Vesturland í nótt. Flughált er á götum víða um land, meðal annars á höfuðborgarsvæðinu.

Á vef Veðurstofunnar segir að síðdegis verði komin fremur róleg austanátt og gangi úrkomusvæði þá inn yfir austur hluta landsins með rigningu eða snjókomu. Það mun svo stytta upp vestantil.

Hiti verður á bilinu núll til sex stig.

„Á morgun og á fimmtudag verður víðáttumikið lægðasvæði suður hafi og áhrifa þess mun gæta hér. Það er útlit fyrir stífa austanátt með rigningu, einkum á Suðaustur- og Austurlandi, en lengst af úrkomulitlu veðri norðan- og vestanlands. Hiti á bilinu 1 til 8 stig,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings.

Spákort fyrir klukkan 14.Veðurstofan

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á miðvikudag: Gengur í austan 8-15 m/s. Væta með köflum, en úrkomulítið á Norður- og Vesturlandi. Hiti 1 til 8 stig. Samfelld rigning suðaustan- og austantil undir kvöld.

Á fimmtudag: Austan 10-18 og rigning, en úrkomulítið á Norður- og Vesturlandi. Hiti breytist lítið.

Á föstudag: Austan 5-13, en 13-18 syðst. Dálitlar skúrir eða él, en bjart að mestu um landið vestanvert. Kólnar í veðri.

Á laugardag: Austlæg átt, skúrir eða él sunnantil og hiti 1 til 6 stig. Að mestu þurrt annars staðar og frost víða 0 til 5 stig, en stöku él á Austurlandi.

Á sunnudag: Útlit fyrir áframhaldandi austanátt með dálitlum éljum austanlands og skúrum eða slydduéljum við suðurströndina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×