Víti í súginn í fjórða jafn­tefli Liverpool í röð

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Dominik Szoboszlai skýtur í slá úr vítaspyrnu í leik Liverpool og Burnley.
Dominik Szoboszlai skýtur í slá úr vítaspyrnu í leik Liverpool og Burnley. getty/Dan Istitene

Englandsmeistarar Liverpool gerðu 1-1 jafntefli við nýliða Burnley á Anfield í ensku úrvalsdeildinni í dag. Þetta var fjórða jafntefli Rauða hersins í röð.

Liverpool var 1-0 yfir í hálfleik eftir mark Florians Wirtz á 42. mínútu. Hann skoraði þá með föstu og nákvæmu skoti úr vítateignum.

Eftir rólega byrjun á tímabilinu hefur Wirtz skorað fjögur mörk í síðustu sex leikjum Liverpool.

Heimamenn hefðu hæglega getað verið með meiri forystu í hálfleik en á 32. mínútu skaut Dominik Szoboszlai í slá úr vítaspyrnu.

Á 65. mínútu jafnaði Marcus Edwards fyrir Burnley með góðu vinstri fótar skoti sem Alisson í marki Liverpool réði ekki við.

Liverpool sótti stíft það sem eftir lifði leiks en pressan skilaði ekki marki og meistararnir urðu að sætta sig við jafntefli. Hugo Ekitike skoraði reyndar á 78. mínútu en markið var dæmt af.

Liverpool er í 4. sæti deildarinnar með 36 stig. Burnley er aftur á móti í nítjánda og næstneðsta sætinu með fjórtán stig. Nýliðarnir hafa gert fjögur jafntefli í síðustu sex deildarleikjum en síðasti sigur liðsins kom 26. október á síðasta ári.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira