Enski boltinn

„Ég er viss um að sigrarnir koma aftur“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Cody Gakpo hélt að hann hefði tryggt Liverpool sigurinn og fagnaði með því að rífa sig úr að ofan.
Cody Gakpo hélt að hann hefði tryggt Liverpool sigurinn og fagnaði með því að rífa sig úr að ofan. Getty/Justin Setterfield

Cody Gakpo, framherji Liverpool, hélt að hann hefði tryggt Liverpool öll þrjú stigin á Craven Cottage í ensku úrvalsdeildinni en Fulham náði að jafna metin í 2-2 á sjöundu mínútu uppbótartímans.

„Já, það er rétt, ég hélt að þetta væri sigurmarkið. Um leið og ég settist á bekkinn skoruðu þeir. Þetta eru vonbrigði fyrir okkur,“ sagði Cody Gakpo við BBC Match of the Day.

Frábært mark hjá þeim

„Við börðumst mjög hart í seinni hálfleik, vorum ráðandi á köflum og reyndum að skapa færi til að komast í gegn. Að lokum skoraði ég á 95. mínútu, þeir skoruðu á 97. mínútu – frábært mark, satt best að segja. Óheppni, ólán,“ sagði Gapko.

Harrison Reed tryggði Fulham jafntefli með stórkostlegu marki á sjöundu mínútu uppbótartímans.

„Þetta er eitthvað sem getur gerst í leik. Ég var nýbúinn að setjast niður svo ég sá ekki hvað gerðist á undan. Ég sá hann bara taka við boltanum og skjóta honum upp í hornið,“ sagði Gapko.

Hefðum kannski átt að skora fleiri mörk

„Ég held að ef maður greinir leikinn hefðum við kannski átt að skora fleiri mörk eða verjast mörkunum tveimur betur. Að lokum hefðum við átt að gera mun betur. Það voru augnablik þar sem við sýndum hversu góðir við erum en það er okkar að halda stöðugleika og sýna betri frammistöðu í heildina. Ég er viss um að sigrarnir koma aftur,“ sagði Gapko.

Hann spilaði í kvöld sem níu eða sem fremsti maður liðsins en ekki á kantinum eins og vanalega.

„Sem framherji viltu alltaf skora mörk til að hjálpa liðinu svo það er plús fyrir mig. Að lokum er þetta liðsíþrótt og við unnum ekki svo ég er samt vonsvikinn,“ sagði Gapko.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×