Innlent

Vilja skoða samfélagsmiðla ís­lenskra ferða­manna

Samúel Karl Ólason skrifar
Ferðamenn við komuna til Bandaríkjanna.
Ferðamenn við komuna til Bandaríkjanna. AP/Ryan Sun

Íslendingar á leið til Bandaríkjanna í frí gætu bráðum þurft að veita Bandaríkjamönnum aðgang að samfélagsmiðlafærslum sínum fimm ár aftur í tímann. Einnig gætu ferðamenn frá Íslandi og öðrum ríkjum þurft að senda inn myndir af sér, ýmis sýni og mikið af upplýsingum um fjölskyldumeðlimi, svo eitthvað sé nefnt.

Breytingarnar myndu ná yfir ríki sem tilheyra hópi ríkja sem tekið hafa þátt í verkefni sem kallast „U.S. Visa Waiver Program“ (VWP). Ísland er í þeim hópi auk 41 annars ríkis en það felur í sér að ferðamenn frá þessum löndum geta fengið vegabréfsáritun fyrir níutíu daga ferðalag til Bandaríkjanna, svo lengi sem sótt er um í gegnum netið.

Í nýrri tillögu frá tolla- og landamæraeftirliti Bandaríkjanna (CPB) um stafrænar umsóknir um ferðaheimildir til Bandaríkjanna (ESTA), segir að til standi að biðja ferðamenn frá áðurnefndum hópi ríkja um langan lista persónuupplýsinga.


Á þessum lista eru upplýsingar um samfélagsmiðlasíður viðkomandi fimm ár aftur í tímann, tölvupóstföng sem viðkomandi hafa notað síðustu tíu árin, símanúmer sem hafa verið notuð síðustu fimm ár en þetta á bæði við vinnutengd og persónuleg símanúmer og tölvupóstföng og og ýmsar upplýsingar um foreldra, systkin og börn.

Þá þarf einnig að veita ýmsar upplýsingar um foreldra, systkin og börn og senda inn andlitsmynd af sér og veita fingrafar, lífsýni og augnaskönnun.


Þá verður ekki hægt að sækja um ferðaheimild til Bandaríkjanna með öðrum stafrænum hætti en i gegnum sérstakt ESTA-snjallforrit, verði breytingarnar samþykktar.

Eins og VWP virkar núna þurfa ferðamenn frá þessum löndum, samkvæmt frétt New York Times, að skrá sig gegnum netið, borga fjörutíu dali og gefa upp tölvupóstfang, heimilisfang, símanúmer og upplýsingar um hvern eigi að hafa samband við í neyðartilfellum.

Ætla að rukka fólk um 250 dali fyrir áritun

Þetta fylgir á hæla sambærilegra breytinga varðandi aðra hópa fólks sem ferðast vill til Bandaríkjanna og umfangsmikillar viðleitni ríkisstjórnar Donalds Trump til að draga úr flæði fólks sem reynir að setjast að í Bandaríkjunum, með bæði löglegum og ólöglegum hætti.

Einnig stendur til að rukka marga af ferðamönnum til Bandaríkjanna um 250 dali fyrir vegabréfsáritun en áðurnefnd 42 eru, enn sem komið er, undanskilin því gjaldi.

Fyrr á þessu ári voru settar reglur um að fólk sem sækir um námsleyfi í Bandaríkjunum þurfa að veita yfirvöldum aðgang að samfélagsmiðlasíðum sínum. Sambærileg regla tekur bráðum gildi um svokallaðar H-1B vegabréfsáritanir fyrir vinnu í Bandaríkjunum,

Eins og fram kemur í frétt NYT hafa forsvarsmenn hagsmunasamtaka ferðaþjónustufyrirtækja í Bandaríkjunum mótmælt þessu harðlega og sérstaklega með tilliti til þess að heimsmeistaramót FIFA fer fram í Bandaríkjunum á næsta ári. Aðilar í ferðaþjónustunni segja að gjaldið gæti komið verulega niður á vilja fólks til að sækja Bandaríkin heim vegna mótsins.

Þá hefur miðillinn eftir lögmönnum sem hafa vakið athygli á breytingartillögunum að um sé að ræða umfangsmikla breytingu þegar kemur að skoðun samfélagsmiðla fólks sem vill ferðast til Bandaríkjanna.

Samfélagsmiðlar hafi áður verið notaðir til að vakta glæpastarfsemi en nú standi til að kanna hvað fólk sé að segja á samfélagsmiðlum og mögulega hafna þeim um vegabréfsáritun á þeim grunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×