Íslenski boltinn

Þróttur keypti Adam Árna frá Grinda­vík

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Adam Árni Róbertsson kominn í Þróttarabúninginn og að skoða aðstæður í Laugardalnum.
Adam Árni Róbertsson kominn í Þróttarabúninginn og að skoða aðstæður í Laugardalnum.

Þróttur Reykjavík hefur keypt þriðja markahæsta leikmann Lengjudeildar karla í fótbolta í sumar.

Framherjinn Adam Árni Róbertsson hefur skrifað undir samning við Þrótt en hann kemur til félagsins frá Grindavík þar sem hann hefur spilað síðustu tvö tímabil og var fyrirliði.

Adam Árni er 26 ára gamall og spilaði fyrst með meistaraflokki Keflavíkur í B-deildinni sumarið 2017. Hann hefur spilað fyrir Keflavík í A-deildinni og skoraði alls 5 mörk í 51 leik.

Adam gerði góða hluti með Grindavíkurliðinu í sumar, var þriðji markahæsti leikmaður Lengjudeildarinnar með fjórtán mörk og skoraði alls sextán mörk í 21 leik í deild og bikar sumarið 2025.

Adam Árni hefur alls skorað 31 mark í 69 leikjum í B-deildinni og Þróttarar ætla að treysta á mörkin hans á komandi sumri. Liðið endaði í þriðja sæti í deildarkeppninni en datt síðan út á móti HK í undanúrslitum umspilsins um laust sæti í Bestu deildinni.

Eldgosamyndir og mörk

Þróttarar kynna nýjan leikmann með eldgosamyndum og svipmyndum frá mörgum af mörgum hans síðasta sumar.

Grindavík segir frá því á sínum miðlum að Þróttur R hafi keypt Adam Árna af Grindavík. „Grindavík vill þakka honum fyrir hans framlag seinustu ár sem gleymist seint,“ segir á miðlum Grindvíkinga.

Adam Árni skoraði eitt mark í 4-2 sigri Grindavíkur á Þrótti í maí en skoraði ekki í seinni leik liðanna.

Höfðu lengi augastað á honum

„Við höfum haft augastað á Adam Árna um lengri tíma og lýsum mikilli ánægju með komu hans í Þrótt. Hann mun styrkja okkar unga og efnilega lið mjög mikið enda hörkuleikmaður,” sagði Kristján Kristjánsson, formaður knattspyrnudeildar Þróttar, í frétt á heimasíðu Þróttar.

„Adam Árni hafði úr mörgum kostum að velja en valdi Þrótt og það segir góða sögu. Við trúum því staðfastlega að koma hans muni styrkja möguleika Þróttar í baráttu fyrir sæti í bestu deildinni sumarið 2026. Við bjóðum Adam Árna velkominn í Laugardalinn,” sagði Kristján.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×