Erlent

Þing­menn segja eitt en Rubio annað: Marg­saga um upp­runa og til­gang friðartillagnanna

Samúel Karl Ólason skrifar
Angus King, öldungadeildarþingmaður, sagði á blaðamannafundi í gærkvöldi að Marco Rubio, utanríkisráðherra, hefði lýst friðartillögunum sem „óskalista Rússa“. Skömmu síðar staðhæfði Rubio að tillögurnar hefðu verið samdar af Bandaríkjamönnum.
Angus King, öldungadeildarþingmaður, sagði á blaðamannafundi í gærkvöldi að Marco Rubio, utanríkisráðherra, hefði lýst friðartillögunum sem „óskalista Rússa“. Skömmu síðar staðhæfði Rubio að tillögurnar hefðu verið samdar af Bandaríkjamönnum. AP

Bandarískir þingmenn sögðust í gærkvöldi hafa rætt við Marco Rubio, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, og að hann hefði sagt þeim að friðartillögur sem Bandaríkjamenn væru að reyna að fá Úkraínumenn til að samþykkja væru „óskalisti“ Vladimírs Pútín, forseta Rússlands. Þingmennirnir höfðu eftir Rubio að tillögurnar mörkuðu ekki raunverulega afstöðu Bandaríkjanna.

Þá segja þeir Rubio hafa sagt að tillögurnar, sem þykja halla verulega á Úkraínumenn, væru upprunalega frá Rússlandi en ráðherrann sjálfur þvertekur fyrir að þetta sé rétt.

Þetta sögðu þingmennirnir, sem eru úr báðum flokkum í Bandaríkjunum og sitja á báðum deildum þings, á öryggisráðstefnu í Halifax. Þeir sögðust hafa átt hópsímtal með Rubio, sem er sagður hafa verið á leið til Sviss þar sem viðræður um tillögurnar eiga að fara fram í dag.

Bæði Politico og AP fréttaveitan hafa þetta eftir þingmönnunum, sem létu þessi ummæli falla fyrir framan fjölda fólks á blaðamannafundi, sem áhugasamir geta séð hér.

Mike Rounds, þingmaður Repúblikanaflokksins, sagði að ríkisstjórn Donalds Trump hefði ekki lekið tillögunum til blaðamanna og einungis stæði til að nota þær sem upphafspunkt til viðræðna.

Rounds sagði einnig að svo virtist sem tillögurnar hefðu upprunalega verið skrifaðar á rússnesku, sem greiningar blaðamanna og annarra hafa áður gefið til kynna að eigi í það minnsta við nokkra liði friðartillögunnar.

Öldungadeildarþingmaðurinn Angus King hafði eftir Rubio að tillögurnar væru ekki til marks um áætlun ríkisstjórnarinnar, heldur væru þær „óskalisti Rússanna“.

Þingmennirnir höfðu einnig eftir Rubio að hann vissi ekki til þess að búið væri að hóta því að ef Úkraínumenn skrifuðu ekki fljótt undir tillögurnar myndu ríkisstjórnin skera á flæði upplýsinga og vopna til Úkraínu.

Sjá einnig: Hóta að skera á flæði vopna og upp­lýsinga skrifi Selenskí ekki fljótt undir

Fregnir hafa borist af því að Trump vilji að Selenskí skrifi undir tillögurnar fyrir fimmtudaginn og Trump hefur sjálfur gefið til kynna að þær fregnir séu réttar, án þess þó að segja það berum orðum.

Í gær sagði Trump að binda þyrfti enda á stríðið í Úkraínu. Ef Selenskí samþykkti ekki tillögurnar, gæti hann „haldið áfram að berjast af öllum sínum kröftum.“

Rubio segir hið þveröfuga

Í samtali við AP sagði talsmaður utanríkisráðuneytisins að ummæli þingmannanna væru kolröng.

Strax í kjölfarið sendi Rubio sjálfur út þau skilaboð á samfélagsmiðlum að friðartillögurnar hefðu verið samdar af Bandaríkjamönnum og að þær væru góður grunnur fyrir yfirstandandi viðræður.

Ráðherrann hélt því fram að Rússar hefðu komið að því að semja tillögurnar en þær hefðu þar að auki tekið mið af áður yfirlýstri afstöðu Úkraínumanna.

Þetta er þvert á ummæli þingmannanna og einnig á meint ummæli ráðherra bandaríska hersins, sem hefur fengið það hlutverk að fá Úkraínumenn til að skrifa undir tillögurnar.

Blaðamaður Financial Times sagði frá því í gær að Dan Driscoll, ráðherra bandaríska hersins, hefði sagt evrópskum sendiherrum og embættismönnum í gær að tillögurnar væru ekki til umræðu. Það væri ekkert að semja um.

Það þyrfti að skrifa undir tillögurnar, eins og þær væru, hið snarasta.

Aðrir miðlar hafa eftir heimildarmönnum af fundinum í Kænugarði að Driscoll hafi sagt að afstaða ríkisstjórnar Trumps væri sú að Úkraínumenn væru í slæmri stöðu og því væri mikilvægt að semja.

Gífurleg óreiða frá upphafi

Óvissan og óreiðan í kringum þessar tillögur hefur verið gífurlega mikil. Upprunalega var henni lekið til bandaríska miðilsins Axios og voru tillögurnar sagðar hafa verið að mestu skrifaðar af auðjöfrunum Steve Witkoff, sem er sérstakur erindreki Donalds Trump, og Kirill Dmitríev, sem hefur áður komið að viðræðum um Úkraínu fyrir hönd Kreml.

Sjá einnig: Sagðir vinna að nýju friðarsamkomulagi án Úkraínu og Evrópu

Witkoff svaraði tísti blaðamanns Axios og skrifaði: „Hann hlýtur að hafa fengið þetta frá K“. Svo virðist sem hann hafi ætlað að senda skilaboðin í einkaskilaboðum og eyddi hann tístinu mjög fljótt. Líklegt þykir að með „K“ hafi Witkoff verið að vísa til Dmitríev, sem vitnað var í í upprunalegu fréttinni.

Sakar Úkraínumenn um leka

Dmitríev lýsti því svo yfir í nótt að það hefðu verið Úkraínumenn sem láku friðartillögunum, ekki hann sjálfur, en óljóst er hvort þeir hafi yfir höfuð vitað af þeim þegar þeim var upprunalega lekið til fjölmiðla.

Auðjöfurinn rússneski sagði einnig að Úkraínumenn hefðu látið gera þá breytingu á tillögunum að liður um að farið yrði yfir hvernig aðstoð til Úkraínumanna hefði verið varið yrði fjarlægður. Í staðinn yrði veitt sakaruppgjöf fyrir alla glæpi sem hafi verið framdir í stríðinu.

Blaðamaður segist hafa séð rússnesk drög fyrir hálfu ári

Ofan á þetta allt saman sagði rannsóknarblaðamaðurinn Christo Grozev, sem hefur lengi einbeitt sér að Rússlandi og á sér langa sögu í því að fletta hulunni ofan af rússneskum njósnurum í Evrópu og víðar, frá því um helgina að hann hefði séð nánast sömu tillögur og væru í friðartillögunum fyrir um hálfu ári síðan.

Sjá einnig: Njósnarar Rússa ræddu morð eða rán á blaðamanni

Hann sagðist hafa séð drög að þessum tillögum og þær væru alfarið rússneskar. Þar hefði hann til dæmis séð sömu tillögu um að nýta ætti hluta frystra sjóða Rússa í Evrópu, ásamt fúlgum fjár frá ríkjum Evrópu, til uppbyggingar í Úkraínu, sem reitt hefur evrópska ráðamenn til reiði.

Sjá einnig: Ósætti um frysta sjóði Rússa - „Witkoff þarf á geðlækni að halda“

Grozev sagði þó að í drögunum sem hann sá hafi verið tveir liðir til viðbótar. Annar hafi snúið að fjárfestingum bandarískra fjárfesta í Rússlandi og hinn að mögulegu bandalagi Rússlands og Bandaríkjanna gegn Kína.

Hver samdi hana og hvar?

Donald Tusk, forsætisráðherra Póllands, tjáði sig um óreiðuna nú í morgunsárið. Í tísti sagði hann að leiðtogar Evrópu, Kanada og Japan væru tilbúnir til að vinna með friðaráætlunina, þó þeir hefðu ýmsar áhyggjur sem að henni snúa.

„Áður en við hefjum þá vinnu, væri samt gott að fá að vita hver væri höfundur þessarar áætlunar og hvar hún var samin.“

Með þessum ummælum er Tusk augljóslega að senda Bandaríkjamönnum tóninn vegna óreiðunnar.


Tengdar fréttir

Útskýrði næstu skref fyrir Kristrúnu og kollegum

Volodimír Selenskí Úkraínuforseti sat fjarfund með forsætisráðherra Íslands í morgun auk annarra þjóðarleiðtoga Norðurlanda og Eystrasaltsríkja. Hann segist hafa útskýrt næstu skref Úkraínumanna í friðarviðræðum. Forsætisráðherra Íslands segir nauðsynlegt að Evrópa sé við samningaborðið, en Bandaríkjamenn vilja að Úkraínumenn samþykki friðartillögur sem samdar voru af ráðamönnum í Moskvu og Washington.

Pútín tekur vel í „friðaráætlun Trumps“

Vladimír Pútín, forseti Rússlands, segir að friðaráætlun sem kynnt var fyrir ráðamönnum í Úkraínu á dögunum, gæti verið grunnur að friðarsamkomulagi milli Rússlands og Úkraínu. Á fundi þjóðaröryggisráðs Rússlands í gærkvöldi hótaði Pútín að leggja undir sig enn meira landsvæði í Úkraínu, verði áætlunin ekki samþykkt.

„Annaðhvort þessir 28 liðir eða gífurlega erfiður vetur“

Vólódímír Selenskí, forseti Úkraínu, ávarpaði þjóð sína í dag og sagði hana í einhverri erfiðustu stöðu sem þjóðin hefði upplifað. Helstu bandamenn Úkraínumanna reyndu að þvinga þá til að gera slæmt samkomulag við Rússa, sem hefðu reynt að sigra Úkraínu í ellefu ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×