Erlent

Kókaínkóngur hand­tekinn á Spáni

Jón Ísak Ragnarsson skrifar
Wilmer "Pipo" Chavarria fyrir miðju.
Wilmer "Pipo" Chavarria fyrir miðju. X/Crime Intel

Wilmer "Pipo" Chavarria, forsprakki eins umsvifamesta glæpagengis Ekvador, hefur verið handtekinn í Malaga á Spáni. Chavarria hafði falsað eigin dauða árið 2021, skipt um nafn og flúið til Evrópu, en þaðan hélt hann áfram að stýra genginu í Ekvador.

Samkvæmt umfjöllun BBC er Los Lobos (Úlfarnir), glæpagengið sem hann stýrði, skilgreint sem hryðjuverkasamtök af yfirvöldum í Ekvador og Bandaríkjunum.

Daniel Noboa, forseti Ekvador, sagði í tilkynningu í dag að Chavarria hefði stýrt aðgerðum Los Lobos frá Evrópu undanfarin ár. Hann hafi meðal annars fyrirskipað morð og ólöglegan námugröft.

Fjölskylda Chavarria hafði tilkynnt um andlát hans 2021, en þau sögðu hann hafa látist vegna hjartaáfalls í kjölfar Covid-19 smits.

Síðastliðin ár hefur mikil glæpaalda riðið yfir Ekvador, sem hefur orðið miðstöð fyrir kókaínsmygl og þar í landi keppast glæpagengi um völd og áhrif.

Kókaín er framleitt í gríðarlegu magni í nágrannaríkjum Ekvador, eins og Perú og Kólumbíu, en ekki í en ekki landinu sjálfu.

Daniel Noboa forseti Ekvador hefur heitið því að vinna bug á glæpagengjunum, en til umræðu er meðal annars hvort erlend ríki geti aftur verið með herstöðvar í landinu. Forsetinn hefur sjálfur lýst því yfir að hann vilji fá Bandaríkjamenn og Evrópu til liðs við sig í stríðinu gegn glæpagengjunum.

Bandaríkjamenn voru með herstöð í Ekvador til ársins 2009, þegar Rafael Correa, þáverandi forseti Ekvador, vildi ekki endurnýja samninginn við Bandaríkjaher.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×