Enski boltinn

Fantasýn: „Þessi vörn er eitt­hvað skrímsli“

Sindri Sverrisson skrifar
Gabriel er vinsæll kostur í fantasy enda magnaður í vörn Arsenal og hættulegur í föstum leikatriðum.
Gabriel er vinsæll kostur í fantasy enda magnaður í vörn Arsenal og hættulegur í föstum leikatriðum. Getty/David Price

Arsenal hefur gengið einstaklega vel að verja mark sitt það sem af er leiktíð og fékk verðskuldað lof í nýjasta þættinum af Fantasýn, þar sem rýnt er í draumadeildarleik ensku úrvalsdeildarinnar í fótbolta.

Hér að neðan má hlusta á nýjasta þátt Fantasýn. Umræðan um Arsenal og hvaða kostir í liðinu eru bestir í fantasy-leiknum hefst eftir 39 mínútur og 20 sekúndur.

Arsenal vann Crystal Palace 1-0 um síðustu helgi, þar sem Eberechi Eze skoraði markið og Declan Rice fékk skráða stoðsendingu. 

Með 2-0 sigrinum gegn Brighton í deildabikarnum í gærkvöld hefur Arsenal nú spilað fjórtán leiki og haldið ellefu sinnum hreinu á leiktíðinni. Liðið fékk ekki á sig eitt einasta mark í október og vann alla sex leiki sína, sem er einsdæmi.

„Hvað er hægt að segja? Þessi vörn er bara eitthvað skrímsli. Maður sá þá í fyrra og hugsaði: Er hægt að vera meira solid en þetta? Og þeir svöruðu: Já, það er hægt,“ sagði Albert Þór Guðmundsson í nýjasta þætti Fantasýn, og hélt áfram:

„Þeir hafa fengið á sig þrjú mörk, gegn Liverpool, City og Newcastle. Það var einhver ein marktilraun í leiknum gegn Palace sem er skráð á Nketiah en var eiginlega engin marktilraun. Fyrir það höfðu þeir ekki fengið á sig skot í 300 mínútur. Það er ótrúlegt hvernig þeir fara að þessu.

Ef við horfum svo á hinn endann þá eru níu síðustu markaskorarar Arsenal í deildinni allir sitt hvor markaskorarinn. Það er enginn einn þarna, eins og Haaland hjá City. Hjá Arsenal er þetta dreift. Þetta kemur að stórum hluta í gegnum föstu leikatriðin en er samt svona dreift,“ sagði Albert.

Þrjá Arsenal-menn í vörnina?

„Þeir hafa undanfarin tímabil oft litið vel út en svo eitthvað gefið eftir þegar líður á tímabilið. En miðað við að Liverpool og City eru að misstíga sig þá er þetta farið að líta ansi vel út á Emirates og ég held að stuðningsmenn Arsenal geti farið að gera sér góðar vonir um titil í vor,“ bætti hann við.

Sindri Kamban velti því upp hvort skynsamlegast væri að vera með þrjá Arsenal-varnarmenn og það gæti verið góður kostur. Albert kvaðst þó mæla frekar með tveimur varnarmönnum og miðjumanni á borð við Bukayo Saka eða Eze. Hægt er að heyra umræðuna alla í spilaranum hér að ofan.

Þess má svo geta að í Sýn Sport einkadeildinni, sem allir Íslendingar fara sjálfkrafa í, varð Ingvi Birgisson stigahæstur í október og hlaut að launum gjafapoka frá Fantasy Premier League auk þriggja mánaða áskriftar að Besta pakkanum hjá Sýn. Stóri vinningurinn í lok tímabils er svo flug, gisting og miði á leik í enska boltanum.

Hægt er að hlusta á alla þætti Fantasýn með því að smella hér.

Hægt er að skrá sig í draumadeildarleik ensku úrvalsdeildarinnar með því að smella hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×