Erlent

Raðsund­laugar­kúkari gengur laus í Oulu

Kjartan Kjartansson skrifar
Linnanmaa-sundlaugin í Oulu í Finnlandi sem ítrekað hefur þurft að loka í sumar vegna kúks í lauginni. Sundlaugin var opnuð í fyrsta skipti fyrr á þessu ári.
Linnanmaa-sundlaugin í Oulu í Finnlandi sem ítrekað hefur þurft að loka í sumar vegna kúks í lauginni. Sundlaugin var opnuð í fyrsta skipti fyrr á þessu ári. Vefsíða Oulu-borgar

Borgaryfirvöldum í finnsku borginni Oulu er nóg boðið vegna þess að ítrekað hefur verið kúkað í almenningssundlaug í borginni í sumar. Þau hafa kært athæfið til lögreglu en á meðan gengur raðkúkarinn laus.

Sex sinnum hefur það gerst að mannaskítur finnst í Linnanmaa-sundlauginni í Oulu frá því í júlí. Lauginni hefur verið lokað fimm sinnum af þessum sökum, að því er kemur fram í frétt finnska ríkisútvarpsins.

Sterkur leikur grunur á að ekki hafi verið um slys að ræða heldur hafi einhver vísvitandi kúkað í laugina.

„Það er búið að útiloka slys hjá börnum. Þetta hefur gerst áður. Það er greinilega fullorðinn viðriðinn þetta,“ segir Erkko Korpela, yfirmaður sundlauga Oulu-borgar.

Til þess að bregðast við óværunni hafa borgaryfirvöld aukið eftirlit við sundlaugina til þess að reyna að hafa hendur í hári síbrotamannsins. Búið er að bæta við sundlaugarverði á hverja vakt og fleira starfsfólk hefur verið fengið til þess að fara yfir upptökur úr eftirlitsmyndavélum. Allt þetta kostar sveitarfélagið.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem raðkúkari herjar á sundlaugar Oulu. Árið 2018 fannst mannaskítur ítrekað í Raksila-sundlauginni í miðborginni. Kennsl voru borin á mögulegan sökudólg en hann var þó aldrei handtekinn.

Lögregla hefur nú kæru borgaryfirvalda til meðferðar. Líkt og sundlaugarstarfsmennirnir gæti hún þurft að hefja mannaveiðar til þess að hafa hendur í hári spellvirkjans.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×