Erlent

Trump til­kynnti um næstu heiðurs­fé­laga Kennedy-miðstöðvarinnar

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Stallone, Gaynor og meðlimir Kiss verða heiðruð, á meðal annarra.
Stallone, Gaynor og meðlimir Kiss verða heiðruð, á meðal annarra. Getty

Donald Trump Bandaríkjaforseti tilkynnti í gær um það hverjir yrðu heiðraðir af Kennedy-listamiðstöðinni. Fyrir valinu urðu meðal annarra hljómsveitarmeðlimir Kiss, söngkonan Gloria Gaynor og leikarinn Sylvester Stallone.

Trump, sem lét það verða eitt af sínum fyrstu embættisverkum að láta forseta og stóran hluta stjórnar listamiðstöðvarinnar fjúka, greindi einnig frá því að hann hygðist sjálfur verða kynnir á heiðursathöfninni.

Forsetinn sagðist sjálfur hafa tekið virkan þátt í valinu á hinum útvöldu; hann hefði hafnað nokkrum tillögum þar sem honum hefði þótt viðkomandi einstaklingar of „woke“ en þá hefðu jafnframt einhverjir afþakkað útnefninguna.

Stallone er meðal einarðra stuðningsmanna Trump og hefur meðal annars lýst honum sem „öðrum George Washington“ en Gene Simmons, söngvari Kiss, hefur gagnrýnt forsetann og meðal annars sagt að hann sé aðeins í hagsmunagæslu fyrir sjálfan sig.

Margt bendir til þess að Trump sé farinn að setja sig í stellingar fyrir 250 ára afmæli Bandaríkjanna á næsta ári, meðal annars með afskiptum af Kennedy-miðstöðinni og inngripum í stjórn Washington borgar.

Þá hefur hann gefið forsvarsmönnum Smithsonian-safnanna 120 daga til að veita yfirgripsmiklar upplýsingar um núverandi og væntanlegar sýningar og hyggst yfirfara allt efni frá safninu til að tryggja að það sé í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×