Íslenski boltinn

Njarð­vík á toppinn

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Komnir á toppinn.
Komnir á toppinn. Vísir/ÓskarÓ

Njarðvík er komið í toppsæti Lengjudeildar karla í knattspyrnu eftir öflugan 3-0 sigur á HK sem er í 3. sæti. ÍR getur náð toppsætinu á nýjan leik annað kvöld.

Fyrir leik kvöldsins voru Njarðvík og HK í 2. og 3. sæti deildarinnar. Aðeins munaði stigi á þeim svo það var ljóst að leikur kvöldsins gæti haft gríðarleg áhrif á hvar liðin munu enda þegar talið verður upp út pokanum fræga í haust.

Á endanum voru það grænklæddir heimamenn sem léku lausum hala í kvöld og áttu gestirnir aldrei möguleika. Lokatölur 3-0 þökk sé mörkum frá Dominik Radic, Arnleifi Hjörleifssyni og Oumar Diouck.

Með sigrinum fer Njarðvík á toppinn með 31 stig að loknum 15 umferðum. ÍR er með 29 stig í 2. sæti og leik til góða. HK er nú í 4. sæti með 27 stig.

Í Laugardalnum vann Þróttur Reykjavík 2-1 sigur á lánlausu liði Fylkis. Kári Kristjánsson og Vilhjálmur Kaldal Sigurðsson með mörk Þróttar á meðan Ásgeir Eyþórsson skoraði mark Fylkis. 

Arnar Grétarsson tók við sem þjálfari Fylkis þegar Árni Freyr Guðnason var látinn fara. Arnari hefur ekki tekist að snúa gengi liðsins við.Vísir/ÓskarÓ

Með sigrinum fer Þróttur upp í 3. sætið með 28 stig á meðan Fylkir er með 11 stig í 10. sæti, aðeins stigi fyrir ofan fallsætin tvö.

Í Breiðholtinu var Keflavík í heimsókn hjá Leikni Reykjavík. Fór það svo að gestirnir unnu 2-0 útisigur. Kári Sigfússon og gamla brýnið Frans Elvarsson með mörkin. Heimamenn í Leikni eru sem fyrr á botninum ásamt Fjölni með 10 stig. Grafarvogsbúar eiga þó leik til góða. Keflavík er á sama tíma í 6. sæti með 25 stig.

Á Akureyri voru Grindvíkingar í heimsókn hjá Þórsurum. Fór það svo að Þór Akureyri vann 2-0 sigur þökk sé mörkum Rafael Victor og sjálfsmarki Haraldar Björgvins Eysteinssonar. Með sigrinum fara Þórsarar upp í 27 stig í 5. sæti á meðan Grindavík er í 8. sæti með 14 stig.

Markaskorarar fengnir af Fótbolti.net.

Staðan í deildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×