Enski boltinn

„Æfingu morgun­dagsins er af­lýst“

Smári Jökull Jónsson skrifar
Glasner lyftir FA-bikarnum á Wembley í dag.
Glasner lyftir FA-bikarnum á Wembley í dag. Vísir/Getty

Oliver Glasner knattspyrnustjóri Crystal Palace er búinn að stimpla sig inn í sögubækur félagsins eftir að hafa stýrt liðinu til sigurs í ensku bikarkeppninni í dag. Þetta er fyrsti stóri titill Crystal Palace í 164 ára sögu félagsins.

Crystal Palace varð í dag enskur bikarmeistari í knattspyrnu með því að leggja Manchester City að velli í úrslitaleik. Eberechi Eze skoraði eina mark leiksins í 1-0 sigri og knattspyrnustjórinn Oliver Glasner var hæstánægður í viðtali við BBC eftir leik.

„Ég trúi þessu ekki, við þurftum að verjast svo mikið. Andinn og samstaðan á vellinum var ótrúleg. Þetta snerist um að vera þolinmóðir, við vorum búnir að greina að ef við myndum hleypa þeim inn í vasann þá væru þeir frábærir. Við þurftum að vera þolinmóðir, leyfa þeim að koma með fyrirgjafir, verjast og bíta eftir rétta augnablikinu til að sækja.“

Hann sagði Manchester City liðið vera frábært en sagði að Palace hefði lært af tapleik gegn City fyrr á tímabilinu.

„Þeir eru svo góðir í sínum að gerðum. Frá því í 5-2 tapinu lærðum við að ef við gefum þeim vasann þá munum við tapa. Við sækjum yfirleitt meira en við gerðum í dag en við urðum að vera þolinmóðir og bíða eftir rétta tækifærinu.“

„Þegar þeir sækja með fjórum sóknarmönnum er erfitt að verjast. En við vissum að við gætum búið til yfirtölu í skyndisóknum. Enginn vængmaður er ánægður að þurfa að verjast, þetta var frábært mark.“

Fögnuður leikmanna Palace í leikslok var ósvikinn og miðað við orð Glasner verður fagnað áfram á næstu dögum.

„Æfingu morgun­dagsins er aflýst. Leikmennirnir vilja líka aflýsa æfingunni á mánudag. Sérstakt hrós til leikmannaanna, þeir hafa aldrei tapað trúnni á mér og þjálfarateyminu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×