Íslenski boltinn

Guðni Ei­ríks­son: Markmannstaðan á Ís­landi er ekki nógu góð

Sesselja Ósk Gunnarsdóttir skrifar
Guðni Eiríksson er þjálfari FH liðsins.
Guðni Eiríksson er þjálfari FH liðsins. Vísir/Guðmundur Þórlaugarson

Guðni Eiríksson þjálfari FH, er að gera flotta hluti með FH konur í Bestu deild kvenna en hann hefur áhyggjur af markamannsmálum á Íslandi.

Enn einn sigur FH í deildinni og segir Guðni Eiríksson þjálfari FH að stelpurnar séu með viljastyrkinn til þess að vinna leiki.

„Liðið er að berjast fyrir hvor aðra og eru að sýna spirit með FH hjarta. Löngunin í að vinna leiki er að skila okkur ansi langt,“ sagði Guðni.

„Ég óttaðist að leikurinn myndi litast af veðuraðstæðum og hann gerði það. Fyrri hálfleikurinn var erfiður með vindinn í andlitið. Ég hefði verið feginn að fara inn í hálfleik með hreina stöðu 0-0, en við fáum svo á okkur mark en Aldís Guðlaugsdóttir sá til þess að við urðum ekki tveimur mörkum undir,“ sagði Guðni.

„Í seinni hálfleik vissum við að við myndum fá vindinn í bakið og vissum að við gætum þrýst þeim niður. Þegar við gerum jöfnunarmarkið þá er nóg eftir og okkur leið vel. Það var flott svo að fá annað markið og við reyndum að sækja þriðja markið en ekki halda stöðunni,“ sagði Guðni.

Enginn varamarkvörður hefur verið á skýrslu hjá FH í deildinni það sem af er tímabili, þrátt fyrir að pláss sé fyrir hendi.

„Fyrir það fyrsta þá er markmannstaðan á Íslandi ekki nógu góð. Það vantar flottar íslenskar stelpur í markið, þetta er staða sem við, knattspyrnuhreyfingin og félögin þurfum að huga betur að,“ sagði Guðni.

„Við erum bara í basli með að finna markmenn og við erum með unga stelpu sem er í tíunda bekk og hún þróast ekki með því að sitja á bekk hjá okkur og fær hún því að spila allar mínútur í ÍH. Þar verður hún betri í fótbolta og þetta er fórnarkostnaðurinn. Við erum að reyna að gera ungan leikmann efnilegri og betri og hún verður það á fótboltavellinum en ekki á bekknum,“ sagði Guðni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×