Uppgjörið: KR - ÍBV 4-1 | KR-ingar enn eina taplausa liðið Þorsteinn Hjálmsson skrifar 10. maí 2025 18:17 Eiður Gauti skoraði tvö í dag. vísir/diego KR fékk ÍBV í heimsókn á AVIS völlinn í Laugardalnum í kvöld. Lauk leiknum með 4-1 heimasigri þar sem Alexander Rafn Pálmason varð yngsti markaskorari í sögu efstu deildar karla. Leikurinn var aðeins átta mínútna gamall þegar fyrsta mark leiksins kom. Það skoraði Alexander Rafn Pálmason, í sínum fyrsta byrjunarliðsleik í Bestu deildinni aðeins 15 ára gamall og varð þar með yngsti markaskorari í sögu efstu deildar. Þrumaði hann þá boltanum inn eftir að Eyjamönnum hafði mistekist að koma boltanum frá eftir fyrirgjöf inn í vítateiginn. Eyjamönnum tókst að jafna leikinn á 24. mínútu eftir að Bjarki Björn Gunnarsson kom með góða fyrirgjöf í kjölfar stuttrar hornspyrnu. Sigurður Arnar Magnússon kastaði sér á boltann og skoraði með skalla og allt orðið jafnt. Í aðdraganda hornspyrnunnar hafði Omar Sowe átt skot í stöngina. Örfáum mínútum seinna þurfti fyrirliði KR, Júlíus Mar Júlíusson, að fara af velli meiddur. Enn ein miðvarðarmeiðslin hjá KR í sumar. Á 37. mínútu komust KR-ingar aftur í forystu. Skoraði þá Eiður Gauti Sæbjörnsson af stuttu færi eftir að hafa fylgt eftir skoti sem Marcel Zapytowski hafði varið frá Matthias Præst. Eiður Gauti að skora fimmta leikinn í röð. KR varð fyrir öðru skakkafalli fyrir hálfleiksflautið þegar Luke Rae fór meiddur út af, en Luke Rae verið einn besti leikmaður KR á tímabilinu hingað til. Bæði lið fengu þokkaleg færi í upphafi síðari hálfleiks. Marcel Zapytowski þurfti meðal annars að hafa sig allan við til þess að verja þrumuskot Arons Þórðar Albertssonar eftir að boltinn féll fyrir fætur hans fyrir utan teiginn eftir hornspyrnu. Á 65. mínútu leiksins slapp Omar Sowe einn í gegn. Skot hans fór þó fram hjá markinu, algjört dauðafæri. Átti það eftir að reynast dýrt því á 82. mínútu kláruðu KR-ingar leikinn. Renndi þá Matthias Præst boltanum á Ástbjörn Þórðarson sem var einn gegn Marcel Zapytowski sem náði snertingu á boltann áður en hann lá í markinu. KR-ingar voru þó ekki hættir. Eiður Gauti skoraði sitt annað mark í leiknum fjórum mínútum eftir þriðja mark KR-inga. Fylgdi hann þá á eftir skoti Ástbjarnar. Atvik leiksins Fyrst mark leiksins, klárlega. Alexander Rafn var að slá met Eiðs Smára Guðjohnsen, ekki leiðum að líkjast. Vonandi fáum við að sjá miklu meira af Alexander Rafni í sumar. Stjörnur og skúrkar Augljós stjarna leiksins er ungstirnið Alexander Rafn Pálmason. Mjög líflegur í liði KR, vel spilandi og skoraði gott mark í upphafi leiks. Eiður Gauti átti einnig frábæran leik. Skoraði tvö mörk og var erfiður ljár í þúfu fyrir varnarmenn ÍBV. Þessi gamli 4. deildar framherji kominn með fimm mörk í Bestu deildinni í aðeins sex leikjum. Omar Sowe er skúrkurinn. Omar var einn besti leikmaður ÍBV í kvöld en hann klúðraði hins vegar algjöru dauðafæri í stöðunni 2-1. Gangur leiksins og niðurstaðan hefði sennilega getað orðið mun heillavænlegri fyrir Eyjamenn ef Omar hefði rent honum í netið á þeim tímapunkti. Dómarar Sigurður Hjörtur Þrastarson og hans aðstoðarmenn með góð tök á leiknum. Engin stór atvik sem þurfti að takast á við í kvöld. Stemning og umgjörð Slagarar eins og „Hvar eru skipin?“ og „Sérðu skip? Þau eru öll löngu bruninn“ voru teknir af stuðningssveit KR, við mikla kátínu viðstaddra. Mjög vel mætt úr Vesturbænum í Laugardalinn og skiljanlega ekki nærri því eins góð mæting frá Eyjamönnum. „Kemur að því að þér sé refsað“ Þorlákur Árnason.Mynd: ÍBV „Þetta var bara svona jafn leikur. Við byrjuðum ekki nægilega vel, vorum bara of aftarlega í byrjun en svo þegar við stigum framar þá urðum við betri. KR-ingarnir kannski aðeins betri í fyrri hálfleik, en svo í seinni hálfleik í stöðunni 2-1 þá fáum við bara urmul af dauðafærum til þess að jafna og klára leikinn að mínu mati,“ sagði Þorlákur Árnason, þjálfari ÍBV, beint eftir leik. Aðspurður hvort hann héldi að tækifærið til þess að vinna eða jafna leikinn hefði farið þegar Omar Sowe klúðraði algjöru dauðafæri á 65. mínútu leiksins, þá svaraði Þorlákur því neitandi. „Nei, við héldum áfram og ég gerði skiptingar til þess að reyna fá leikmenn inn til þess að pota marki. En það er bara þannig að þegar þú brennir af fjórum til fimm dauðafærum í stöðunni 2-1 þá kemur að því að þér sé refsað og KR-ingarnir gerðu það.“ KR og ÍBV munu mætast aftur á miðvikudaginn í Mjólkurbikarnum. Þorlákur segir fínt að mæta sama liðinu með svona skömmu millibili. „Það er bara fínt. Kannski verra að vera spila tvo útileiki á svona stuttum tíma en við erum bara spenntir að koma aftur. Þetta var skemmtilegur fótboltaleikur en maður hefði viljað sjá öðruvísi endi í dag.“ Þorlákur nefnir margt sem Eyjamenn geta tekið með sér úr leiknum í kvöld inn í þann næsta. „Bara hrikalega ánægður með spilamennskuna á svona hálftímakafla í seinni hálfleik þar sem við gerðum allt til þess að jafna leikinn. Ánægður með ákefðina, fyrir utan fyrstu tíu mínúturnar. Misstum síðan aðeins hausinn í stöðunni 3-1 en svona stór hluti af leiknum bara góður.“ „Bara fínt að fá þrjú stig, þeir segja að það sé gott“ Óskar Hrafn þurfti að taka Luke Rae af velli vegna meiðsla.Vísir/Anton Brink „Þetta var dálítið kaflaskipt. Mér fannst fyrri hálfleikurinn að mörgu leyti mjög góður hjá okkur, en mér fannst við aðeins missa taktinn við skiptingarnar, það er oft flókið. Mér fannst fyrstu tuttugu mínúturnar í seinni hálfleik, þá þurftum við að þjást. En síðan enduðum við leikinn af miklum krafti. Bara fínt að fá þrjú stig, þeir segja að það sé gott,“ sagði Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari KR, eftir leikinn. Óskar Hrafn var beðinn um nokkur orð um ungstirnið Alexander Rafn Pálmason. „Ef þú ert nógu góður þá ertu nógu gamall. Ég vissi það svo sem að hann gæti spilað í þessu liði og þessari deild, það er nokkuð ljóst. Gaman fyrir hann, gaman fyrir félagið og gaman fyrir fjölskylduna hans, en ef ég á aðeins að skemma stemninguna þá er fullt af hlutum sem hann getur bætt. Hann er frábært efni og virkilega gaman að þjálfa hann.“ Við finnum alltaf lausnir KR-ingar misstu tvo máttarstólpa úr liðinu í fyrri hálfleik vegna meiðsla. Júlíus Mar Júlíusson og Luke Rae fóru þá meiddir af velli. „Júlíus var að glíma við, fékk hné í lærið á móti Breiðablik og var sennilega ekki alveg orðinn jafn góður eins og hann og við vorum að vonast eftir. Ég á ekki von á að það verði alvarlegt með hann. En Luke, hann meiddist aftan í læri þannig að hversu lengi eða hvað það er verður bara að koma í ljós. Þetta er eitthvað sem við höfum þurft að glíma við frá áramótum. Blikaleikurinn var erfiður og sat lengur í mönnum heldur en flestir aðrir leikir og þá stundumst gerast svona hlutir eins og gerðist við Luke í dag. Ekki gott að missa Luke Rae ef það verður í lengri tíma, en við finnum alltaf lausnir.“ Ég var nú ekki fastagestur á leikjum hjá Ými í fjórðu deildinni Eiður Gauti Sæbjörnsson, framherji KR, skoraði tvö mörk í kvöld og var að skora í sínum fimmta leik í röð, fjórir í deild og einn í bikar. Óskar Hrafn hrósaði honum í hástert eftir leik. „Ég náttúrulega fylgdist með honum í fyrra og hafði aðeins séð hann fyrir mörgum árum þegar hann var í 2. flokki, sá hann fyrst þá. Sá hann svo aftur í fyrra. Viðurkenni það að ég var nú ekki fastagestur á leikjum hjá Ými í fjórðu deildinni en ég sá alveg þau gæði sem að hann bjó yfir í fyrra. Svo var það bara spurning um hversu mikinn drifkraft hann hefði til þess að taka næsta skref. Hann er auðvitað með mikla hæfileika og duglegur, alhliða framherji. Ég get ekkert sagt nema fallegustu hluti í heimi Eið Gauta, hann er einn af okkar mikilvægustu mönnum.“ Spóla upp hraðann, stíga bensíngjöfina í botn og fara ekki af henni KR mætir ÍBV aftur á miðvikudaginn í Mjólkurbikarnum. Óskar Hrafn sér mörg tækifæri hjá sínu liði á að gera enn betur þá. „Við tökum það með okkur að þegar þú spilar á móti ÍBV þá þarf að vera kveikt á þér í 90 mínútur. Ef það er ekki kveikt á þér, ekki á tánum, ef þú gefur boltann frá þér, ef þú átt lélega þversendingu þá stela þeir honum og þeir eru mjög fljótir fram á við.“ „Við þurfum að vera hundrað prósent fókúseraðir, þurfum að passa aðeins betur upp á boltann, við þurfum að halda tempóinu uppi sem mér fannst vera hluti af vandamálinu fyrstu tuttugu mínúturnar í seinni hálfleik. Hraðinn í leiknum dó svolítið og var frekar á þeirra forsendum heldur en okkar. Við verðum að halda leiknum á okkar forsendum sem er bara að spóla upp hraðann, stíga bensíngjöfina í botn og fara ekki af henni.“ Besta deild karla KR ÍBV Fótbolti Íslenski boltinn
KR fékk ÍBV í heimsókn á AVIS völlinn í Laugardalnum í kvöld. Lauk leiknum með 4-1 heimasigri þar sem Alexander Rafn Pálmason varð yngsti markaskorari í sögu efstu deildar karla. Leikurinn var aðeins átta mínútna gamall þegar fyrsta mark leiksins kom. Það skoraði Alexander Rafn Pálmason, í sínum fyrsta byrjunarliðsleik í Bestu deildinni aðeins 15 ára gamall og varð þar með yngsti markaskorari í sögu efstu deildar. Þrumaði hann þá boltanum inn eftir að Eyjamönnum hafði mistekist að koma boltanum frá eftir fyrirgjöf inn í vítateiginn. Eyjamönnum tókst að jafna leikinn á 24. mínútu eftir að Bjarki Björn Gunnarsson kom með góða fyrirgjöf í kjölfar stuttrar hornspyrnu. Sigurður Arnar Magnússon kastaði sér á boltann og skoraði með skalla og allt orðið jafnt. Í aðdraganda hornspyrnunnar hafði Omar Sowe átt skot í stöngina. Örfáum mínútum seinna þurfti fyrirliði KR, Júlíus Mar Júlíusson, að fara af velli meiddur. Enn ein miðvarðarmeiðslin hjá KR í sumar. Á 37. mínútu komust KR-ingar aftur í forystu. Skoraði þá Eiður Gauti Sæbjörnsson af stuttu færi eftir að hafa fylgt eftir skoti sem Marcel Zapytowski hafði varið frá Matthias Præst. Eiður Gauti að skora fimmta leikinn í röð. KR varð fyrir öðru skakkafalli fyrir hálfleiksflautið þegar Luke Rae fór meiddur út af, en Luke Rae verið einn besti leikmaður KR á tímabilinu hingað til. Bæði lið fengu þokkaleg færi í upphafi síðari hálfleiks. Marcel Zapytowski þurfti meðal annars að hafa sig allan við til þess að verja þrumuskot Arons Þórðar Albertssonar eftir að boltinn féll fyrir fætur hans fyrir utan teiginn eftir hornspyrnu. Á 65. mínútu leiksins slapp Omar Sowe einn í gegn. Skot hans fór þó fram hjá markinu, algjört dauðafæri. Átti það eftir að reynast dýrt því á 82. mínútu kláruðu KR-ingar leikinn. Renndi þá Matthias Præst boltanum á Ástbjörn Þórðarson sem var einn gegn Marcel Zapytowski sem náði snertingu á boltann áður en hann lá í markinu. KR-ingar voru þó ekki hættir. Eiður Gauti skoraði sitt annað mark í leiknum fjórum mínútum eftir þriðja mark KR-inga. Fylgdi hann þá á eftir skoti Ástbjarnar. Atvik leiksins Fyrst mark leiksins, klárlega. Alexander Rafn var að slá met Eiðs Smára Guðjohnsen, ekki leiðum að líkjast. Vonandi fáum við að sjá miklu meira af Alexander Rafni í sumar. Stjörnur og skúrkar Augljós stjarna leiksins er ungstirnið Alexander Rafn Pálmason. Mjög líflegur í liði KR, vel spilandi og skoraði gott mark í upphafi leiks. Eiður Gauti átti einnig frábæran leik. Skoraði tvö mörk og var erfiður ljár í þúfu fyrir varnarmenn ÍBV. Þessi gamli 4. deildar framherji kominn með fimm mörk í Bestu deildinni í aðeins sex leikjum. Omar Sowe er skúrkurinn. Omar var einn besti leikmaður ÍBV í kvöld en hann klúðraði hins vegar algjöru dauðafæri í stöðunni 2-1. Gangur leiksins og niðurstaðan hefði sennilega getað orðið mun heillavænlegri fyrir Eyjamenn ef Omar hefði rent honum í netið á þeim tímapunkti. Dómarar Sigurður Hjörtur Þrastarson og hans aðstoðarmenn með góð tök á leiknum. Engin stór atvik sem þurfti að takast á við í kvöld. Stemning og umgjörð Slagarar eins og „Hvar eru skipin?“ og „Sérðu skip? Þau eru öll löngu bruninn“ voru teknir af stuðningssveit KR, við mikla kátínu viðstaddra. Mjög vel mætt úr Vesturbænum í Laugardalinn og skiljanlega ekki nærri því eins góð mæting frá Eyjamönnum. „Kemur að því að þér sé refsað“ Þorlákur Árnason.Mynd: ÍBV „Þetta var bara svona jafn leikur. Við byrjuðum ekki nægilega vel, vorum bara of aftarlega í byrjun en svo þegar við stigum framar þá urðum við betri. KR-ingarnir kannski aðeins betri í fyrri hálfleik, en svo í seinni hálfleik í stöðunni 2-1 þá fáum við bara urmul af dauðafærum til þess að jafna og klára leikinn að mínu mati,“ sagði Þorlákur Árnason, þjálfari ÍBV, beint eftir leik. Aðspurður hvort hann héldi að tækifærið til þess að vinna eða jafna leikinn hefði farið þegar Omar Sowe klúðraði algjöru dauðafæri á 65. mínútu leiksins, þá svaraði Þorlákur því neitandi. „Nei, við héldum áfram og ég gerði skiptingar til þess að reyna fá leikmenn inn til þess að pota marki. En það er bara þannig að þegar þú brennir af fjórum til fimm dauðafærum í stöðunni 2-1 þá kemur að því að þér sé refsað og KR-ingarnir gerðu það.“ KR og ÍBV munu mætast aftur á miðvikudaginn í Mjólkurbikarnum. Þorlákur segir fínt að mæta sama liðinu með svona skömmu millibili. „Það er bara fínt. Kannski verra að vera spila tvo útileiki á svona stuttum tíma en við erum bara spenntir að koma aftur. Þetta var skemmtilegur fótboltaleikur en maður hefði viljað sjá öðruvísi endi í dag.“ Þorlákur nefnir margt sem Eyjamenn geta tekið með sér úr leiknum í kvöld inn í þann næsta. „Bara hrikalega ánægður með spilamennskuna á svona hálftímakafla í seinni hálfleik þar sem við gerðum allt til þess að jafna leikinn. Ánægður með ákefðina, fyrir utan fyrstu tíu mínúturnar. Misstum síðan aðeins hausinn í stöðunni 3-1 en svona stór hluti af leiknum bara góður.“ „Bara fínt að fá þrjú stig, þeir segja að það sé gott“ Óskar Hrafn þurfti að taka Luke Rae af velli vegna meiðsla.Vísir/Anton Brink „Þetta var dálítið kaflaskipt. Mér fannst fyrri hálfleikurinn að mörgu leyti mjög góður hjá okkur, en mér fannst við aðeins missa taktinn við skiptingarnar, það er oft flókið. Mér fannst fyrstu tuttugu mínúturnar í seinni hálfleik, þá þurftum við að þjást. En síðan enduðum við leikinn af miklum krafti. Bara fínt að fá þrjú stig, þeir segja að það sé gott,“ sagði Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari KR, eftir leikinn. Óskar Hrafn var beðinn um nokkur orð um ungstirnið Alexander Rafn Pálmason. „Ef þú ert nógu góður þá ertu nógu gamall. Ég vissi það svo sem að hann gæti spilað í þessu liði og þessari deild, það er nokkuð ljóst. Gaman fyrir hann, gaman fyrir félagið og gaman fyrir fjölskylduna hans, en ef ég á aðeins að skemma stemninguna þá er fullt af hlutum sem hann getur bætt. Hann er frábært efni og virkilega gaman að þjálfa hann.“ Við finnum alltaf lausnir KR-ingar misstu tvo máttarstólpa úr liðinu í fyrri hálfleik vegna meiðsla. Júlíus Mar Júlíusson og Luke Rae fóru þá meiddir af velli. „Júlíus var að glíma við, fékk hné í lærið á móti Breiðablik og var sennilega ekki alveg orðinn jafn góður eins og hann og við vorum að vonast eftir. Ég á ekki von á að það verði alvarlegt með hann. En Luke, hann meiddist aftan í læri þannig að hversu lengi eða hvað það er verður bara að koma í ljós. Þetta er eitthvað sem við höfum þurft að glíma við frá áramótum. Blikaleikurinn var erfiður og sat lengur í mönnum heldur en flestir aðrir leikir og þá stundumst gerast svona hlutir eins og gerðist við Luke í dag. Ekki gott að missa Luke Rae ef það verður í lengri tíma, en við finnum alltaf lausnir.“ Ég var nú ekki fastagestur á leikjum hjá Ými í fjórðu deildinni Eiður Gauti Sæbjörnsson, framherji KR, skoraði tvö mörk í kvöld og var að skora í sínum fimmta leik í röð, fjórir í deild og einn í bikar. Óskar Hrafn hrósaði honum í hástert eftir leik. „Ég náttúrulega fylgdist með honum í fyrra og hafði aðeins séð hann fyrir mörgum árum þegar hann var í 2. flokki, sá hann fyrst þá. Sá hann svo aftur í fyrra. Viðurkenni það að ég var nú ekki fastagestur á leikjum hjá Ými í fjórðu deildinni en ég sá alveg þau gæði sem að hann bjó yfir í fyrra. Svo var það bara spurning um hversu mikinn drifkraft hann hefði til þess að taka næsta skref. Hann er auðvitað með mikla hæfileika og duglegur, alhliða framherji. Ég get ekkert sagt nema fallegustu hluti í heimi Eið Gauta, hann er einn af okkar mikilvægustu mönnum.“ Spóla upp hraðann, stíga bensíngjöfina í botn og fara ekki af henni KR mætir ÍBV aftur á miðvikudaginn í Mjólkurbikarnum. Óskar Hrafn sér mörg tækifæri hjá sínu liði á að gera enn betur þá. „Við tökum það með okkur að þegar þú spilar á móti ÍBV þá þarf að vera kveikt á þér í 90 mínútur. Ef það er ekki kveikt á þér, ekki á tánum, ef þú gefur boltann frá þér, ef þú átt lélega þversendingu þá stela þeir honum og þeir eru mjög fljótir fram á við.“ „Við þurfum að vera hundrað prósent fókúseraðir, þurfum að passa aðeins betur upp á boltann, við þurfum að halda tempóinu uppi sem mér fannst vera hluti af vandamálinu fyrstu tuttugu mínúturnar í seinni hálfleik. Hraðinn í leiknum dó svolítið og var frekar á þeirra forsendum heldur en okkar. Við verðum að halda leiknum á okkar forsendum sem er bara að spóla upp hraðann, stíga bensíngjöfina í botn og fara ekki af henni.“