Íslenski boltinn

„Fannst við halda góðri stjórn á leiknum“

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Álfhildur er fyrirliði Þróttar, eitt af fjórum liðum deildarinnar sem hefur ekki tapað leik.
Álfhildur er fyrirliði Þróttar, eitt af fjórum liðum deildarinnar sem hefur ekki tapað leik.

Álfhildur Rósa Kjartansdóttir, fyrirliði Þróttar, er ánægð með byrjun liðsins á tímabilinu. Þróttur sótti eins marks sigur gegn Víkingi í jöfnum baráttuleik í kvöld og hefur ekki tapað enn í deildinni.

„Þetta var ótrúlega jafn leikur, kaflaskiptur, þær áttu ótrúlega góða kafla og við líka en ég held að það hafi bara verið þetta mark sem við náðum að skora [sem skildi milli liðanna]“ sagði Álfhildur í viðtali fljótlega eftir leik.

„Mér fannst frammistaðan fín en kannski svolítið upp og niður, það komu kaflar þar sem við duttum smá niður eins og undir lok fyrri hálfleiks en mér fannst við halda góðri stjórn á leiknum“ sagði hún einnig.

Síðustu leikir þessara liða hafa flestir endað með eins marks sigri eða jafntefli.

„Alltaf mjög jafnir og svona alveg hörku leikir, mikil barátta inni á vellinum þegar við mætumst, ekki mikið af mörkum. Þannig að það var mjög gott að ná þessum sigri.“

Þróttur hefur ekki tapað leik það sem af er tímabili og er ásamt FH, Val og Breiðablik í efsta sæti deildarinnar með sjö stig.

„Það er bara frábært, geggjað… Spennt að keppa næsta leik [heima gegn Tindastóli], tökum bara einn leik í einu. Mér finnst þetta bara fara mjög vel af stað hjá okkur, ég er mjög sátt við þessa byrjun“ sagði Álfhildur að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×