Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins stefndi Möltu vegna vegabréfasölunnar árið 2022. Möltubúar seldu ríkisborgararéttinn á um það bil milljón evrur, jafnvirði hátt í 150 milljóna íslenskra króna. Lokað var á möguleikann að Rússar og Hvítrússar gætu keypt sér maltneskt vegabréf eftir innrás Rússa í Úkraínu 2022 en leiðin hefur áfram staðið öðrum til boða.
Evrópudómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu að þótt að aðildarríkjum Evrópusambandsins væri frjálst ákveða hvernig þau veittu eða felldu niður ríkisborgararétt þá græfi maltneska leiðin undan sameiginlegu trausti Evrópuríkja. Aðildarríkin gætu ekki selt ríkisborgararétt fyrir tiltekna upphæð eða fjárfestingu, að því er segir í frétt Reuters.
Matlversk stjórnvöld segjast ætla að virða niðurstöðuna. Þau verja söluna sem þau segja að hafi skilað þjóðarbúinu um 1,4 milljörðum evra, jafnvirði um 205 milljarða íslenskra króna, frá árinu 2015, að sögn AP-fréttastofunnar.
Sambærilegar leiðir voru opnar í sumum Evrópuríkjum fyrir nokkrum árum en þeim hefur verið lokað, meðal annars vegna áhyggna af því að með þeim gætu erlendir ríkisborgarar komist undan refsiaðgerðum.
Kýpversk stjórnvöld hættu sambærilegri leið fyrir erlenda auðjöfra til að öðlast ríkisborgararétt undan þrýstingi frá Evrópuríkjum. Breskir kaupsýslumenn nýttu sér meðal annars Kýpur til þess að halda réttindum í Evrópu eftir að ákveðið var að Bretland gengi úr Evrópusambandinu.