Forest tók stórt skref í átt að Meistaradeild Evrópu Sindri Sverrisson skrifar 8. mars 2025 14:15 Matz Sels grípur boltann á undan Erling Haaland í leiknum í dag. Getty/Mike Egerton Englandsmeisturum Manchester City mistókst að komast upp fyrir Nottingham Forest þegar þeir töpuðu 1-0 í leik liðanna í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag. Callum Hudson-Odoi skoraði sigurmarkið á 83. mínútu þegar hann kom með boltann af hægri kantinum og náði að skora á nærstöng, framhjá Ederson sem hefði eflaust getað gert betur í marki City. Eins og lokatölur leiksins bera með sér þá var ekki mikið um færi í leiknum. Nico González komst næst því að skora í fyrri hálfleiknum þegar hann átti þrumuskot utan teigs sem fór í stöngina og framhjá. Um miðjan seinni hálfleik var Hudson-Odoi óhemju nálægt því að skora fyrir heimamenn en Ederson tókst einhvern veginn að koma fingrum í boltann og verja í stöng. Hann varð hins vegar að játa sig sigraðan skömmu síðar eins og fyrr segir. Varamaðurinn Mateo Kovacic var næstum því búinn að tryggja City jafntefli með frábæru skoti í uppbótartíma en boltinn sleikti stöngina. Úrslitin þýða að Forest er áfram í 3. sæti deildarinnar og nú fjórum stigum á undan City sem er í 4. sætinu með 47 stig. Chelsea er með 46 stig og getur nú komist upp fyrir City með sigri gegn Leicester á morgun. Newcastle er svo í 6. sæti með 44 stig og leik til góða við West Ham á mánudag en allt bendir til þess að fimm efstu liðin í ensku úrvalsdeildinni komist í Meistaradeild Evrópu á næstu leiktíð, vegna góðs árangurs ensku liðanna í Evrópukeppnum í ár. Enski boltinn
Englandsmeisturum Manchester City mistókst að komast upp fyrir Nottingham Forest þegar þeir töpuðu 1-0 í leik liðanna í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag. Callum Hudson-Odoi skoraði sigurmarkið á 83. mínútu þegar hann kom með boltann af hægri kantinum og náði að skora á nærstöng, framhjá Ederson sem hefði eflaust getað gert betur í marki City. Eins og lokatölur leiksins bera með sér þá var ekki mikið um færi í leiknum. Nico González komst næst því að skora í fyrri hálfleiknum þegar hann átti þrumuskot utan teigs sem fór í stöngina og framhjá. Um miðjan seinni hálfleik var Hudson-Odoi óhemju nálægt því að skora fyrir heimamenn en Ederson tókst einhvern veginn að koma fingrum í boltann og verja í stöng. Hann varð hins vegar að játa sig sigraðan skömmu síðar eins og fyrr segir. Varamaðurinn Mateo Kovacic var næstum því búinn að tryggja City jafntefli með frábæru skoti í uppbótartíma en boltinn sleikti stöngina. Úrslitin þýða að Forest er áfram í 3. sæti deildarinnar og nú fjórum stigum á undan City sem er í 4. sætinu með 47 stig. Chelsea er með 46 stig og getur nú komist upp fyrir City með sigri gegn Leicester á morgun. Newcastle er svo í 6. sæti með 44 stig og leik til góða við West Ham á mánudag en allt bendir til þess að fimm efstu liðin í ensku úrvalsdeildinni komist í Meistaradeild Evrópu á næstu leiktíð, vegna góðs árangurs ensku liðanna í Evrópukeppnum í ár.
Rifjuðu upp þegar Gummi spurði strákana eftir tvær umferðir hvort KR gæti orðið meistari Íslenski boltinn
Rifjuðu upp þegar Gummi spurði strákana eftir tvær umferðir hvort KR gæti orðið meistari Íslenski boltinn