Erlent

Banna fisk­eldi í opnum kvíum við strendur Bresku-Kólumbíu

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Íbúar í Bresku-Kólumbíu styðja bann gegn fiskeldi í opnum kvíum.
Íbúar í Bresku-Kólumbíu styðja bann gegn fiskeldi í opnum kvíum. Getty

Stjórnvöld í Kanada hafa ákveðið að banna fiskeldi í opnum kvíum við strendur Bresku-Kólumbíu. Bannið tekur gildi eftir fimm ár og hefur verið fagnað af umhverfisverndarsinnum.

Bannið er framhald af stefnumótun sem hófst fyrir um það bil fimm árum en þá var ákveðið að færa allt fiskeldi yfir í lokaðar kvíar til að vernda villta laxastofna. Jonathan Wilkinson, auðlindaráðherra, segir um að ræða skref í þágu laxastofnanna, náttúrunnar, sjálfbærni og hreinnar tækni.

Sjókvíaeldi er umfangsmikið í Bresku-Kólumbíu og samtök fyrirtækja í iðnaðinum segja að um 6.000 störf muni hverfa ef af banninu verður. Sjókvíaeldi skapi 880 milljónir Bandaríkjadala í tekjur fyrir samfélögin á svæðinu.

Brian Kingzet, framkvæmdastjóri BC Salmon Farmers Association segir óraunhæft að ætla að hefja framleiðslu á 70.000 tonnum af laxi á landi eftir fimm ár en áætlanirnar séu í engu samræmi við núverandi tæknilega getu.

Stjórnvöld segjast á móti munu kynna áætlun á næstunni sem miðar að því að koma til móts við frumbyggjasamfélög og starfsmenn í sjókvíaeldi og draga úr neikvæðum efnahagslegum áhrifum bannsins.

Skoðanakannanir sýna að meirihluti íbúa Bresku-Kólumbíu er fylgjandi banninu og þá hafa yfir 120 hópar frumbyggja á svæðinu lýst yfir stuðningi við landeldi.

Guardian greindi frá.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×