Íslenski boltinn

„Þurfum að virða það að þú þarft að hafa fyrir hlutunum“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ólafur Kristjánsson á enn eftir að stýra Þrótti til sigurs í Bestu deild kvenna.
Ólafur Kristjánsson á enn eftir að stýra Þrótti til sigurs í Bestu deild kvenna. vísir/hulda margrét

Ólafur Kristjánsson, þjálfari Þróttar, var ekki sáttur með framlag sinna leikmanna í leiknum gegn Keflavík í dag. Þróttarar töpuðu, 1-0, og sitja á botni Bestu deildar kvenna með aðeins eitt stig.

Ólafur hefði viljað sjá sitt lið teygja sig lengra eftir sigrinum.

„Mér fannst það í raun. Í hálfleik töluðum við um að þessi leikur myndi kannski ráðast á einhvers konar, föstu leikatriði, klassískt. Og það gerði það svo sannarlega. Við skölluðum boltann fyrir fæturna á þeim og þær grípa þá bráð,“ sagði Ólafur við Vísi eftir leikinn.

Þróttur átti ágætis kafla um miðbik seinni hálfleiks en eftir að Keflavík skoraði datt allur botn úr leik gestanna.

„Það er svo þreytt að tala um að við fáum færi sem við nýtum ekki og fáum það svo í andlitið. Það gengur ekki að tala um það í 6-7 leiki. Við þurfum að herða skrúfurnar heldur betur,“ sagði Ólafur.

En hvað þurfa Þróttarar að gera til að komast á beinu brautina?

„Við þurfum það að þegar þú ert að keppa geturðu ekki alltaf beðið um rennisléttan grasvöll og þar fram eftir götunum. Við þurfum að virða það að þú þarft að hafa fyrir hlutunum. Grunnvinnan, berjast, fara í návígi, hún þarf að vera til staðar. Við þurfum að einbeita okkur meira að því. Þar á eftir kemur það hvernig við spilum,“ svaraði Ólafur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×