Enski boltinn

Fernandes eyðir ó­vissunni: „Ég vil ekki fara“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Bruno Fernandes var valinn leikmaður ársins hjá Manchester United. Hér sést hann með verðlaunagripinn.
Bruno Fernandes var valinn leikmaður ársins hjá Manchester United. Hér sést hann með verðlaunagripinn. getty/Ash Donelon

Bruno Fernandes, fyrirliði Manchester United, segist ekki vilja yfirgefa félagið í pistli sem birtist á The Players' Tribune.

Í viðtali við DAZN í apríl gaf Fernandes það í skyn að hann gæti farið frá United. Hann hefur nú eytt þeirri óvissu sem ummæli hans sköpuðu.

„Ég elska ekkert meira en að labba út á Old Trafford. Ég vil ekki fara. Þetta hefur alltaf verið stærsti draumur minn,“ skrifaði Fernandes á The Players' Tribune.

Hann vill þó vera viss um að metnaðurinn til að ná árangri sé til staðar hjá United.

„Ég vil bara að væntingar mínar samræmist væntingum félagsins. Ef þú talar við hvaða stuðningsmann sem er segja þeir allir það sama. Við viljum berjast um Englandsmeistaratitilinn. Við viljum spila í Meistaradeild Evrópu. Við viljum vera í bikarúrslitaleikjum,“ skrifaði Fernandes.

Portúgalinn leiðir lið United út á Wembley á morgun en þá mætir það Manchester City í úrslitum ensku bikarkeppninnar. Þessi lið mættust einnig í bikarúrslitum í fyrra og þá vann City 2-1 sigur.

Fernandes kom til United fyrir fjórum árum. Hann var gerður að fyrirliða liðsins síðasta sumar.

Í gær var Fernandes valinn leikmaður ársins hjá United í þriðja sinn.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×