Enski boltinn

Yfir­menn Pep full­vissir um að fé­lagið verði ekki sak­fellt

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Al Mubarak Khaldoon, Pep Guardiola, Ferran Soriano og Txiki Begiristain um liðna helgi.
Al Mubarak Khaldoon, Pep Guardiola, Ferran Soriano og Txiki Begiristain um liðna helgi. Robbie Jay Barratt/Getty Images

Manchester City varð um helgina Englandsmeistari í fjórða sinn á fjórum árum. Það breytir því hins vegar ekki að sem stendur hefur félagið verið ákært fyrir 115 brot á fjárhagsreglum ensku úrvalsdeildarinnar.

Pep Guardiola hefur náð ótrúlegum árangri síðan hann tók við Man City sumarið 2016. Alls hefur hann orðið Englandsmeistari sex sinnum, bikarmeistari tvisvar [og gæti bætt þeim þriðja við um helgina], ensku deildarbikarmeistari fjórum sinnum ásamt því að vinna Meistaradeild Evrópu, Ofurbikar Evrópu og HM félagsliða einu sinni.

Þrátt fyrir allan þennan árangur þá má segja að ákærurnar 115 hangi sem skuggi yfir félaginu og árangri þess undanfarin ár.

Nú greinir Times Sport frá því að þeir Khaldoon Al-Mubarak (stjórnarformaður Man City), Ferran Soriano (framkvæmdastjóri City Football Group) og Txiki Begiristain (yfirmaður knattspyrnumála hjá Man City) hafi fullvissað Pep að félagið verið ekki sakfellt.

Mál Man City er gjörólíkt málum Everton og Nottingham Forest en stig voru dregin af báðum liðum á leiktíðinni. Þau lið voru einfaldlega með bókhald sem stóðst ekki regluverk ensku úrvalsdeildarinnar á meðan Man City er sakað um að hafa falsað bókhald sitt og borga hinum ýmsu aðilum í gegnum skúffufyrirtæki.

Ekki hefur verið greint frá því hvenær málið verður tekið fyrir en Richard Masters, framkvæmdastjóri ensku úrvalsdeildarinnar, segir að það sé þó búið að ákveða hvenær það verður. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×