Íslenski boltinn

„Það er eitt að vera góður og annað að fá eitt­hvað fyrir það“

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Heimir Guðjónsson var að vonum svekktur með niðurstöðu leiks
Heimir Guðjónsson var að vonum svekktur með niðurstöðu leiks Vísir/Diego

Víkingur batt enda á sigurgöngu FH með 2-0 sigri í toppslag deildarinnar í kvöld. Heimir Guðjónsson, þjálfari FH, sagði margt jákvætt hægt að taka úr leiknum en var óánægður með hvernig hans lið brást við þegar Víkingur missti mann af velli. 

„Vonbrigði að tapa þessum leik, þurftum ekki að tapa og það voru forsendur fyrir því að vinna en Víkingarnir refsa og þeir eru góðir að fylla teiginn í fyrirgjöfum“ sagði Heimir Guðjónsson, þjálfari FH, strax eftir leik. 

„Stóðum ekki nógu vel þegar við fengum á okkur þessi mörk. Fyrir utan það sköpuðu þeir ekki neitt. Heilt yfir er ég sáttur við FH liðið, nema eftir að við urðum manni fleiri. Þá voru forsendur fyrir. Skipta milli vængja, fá fyrirgjafir, við gerðum það ekki og það voru vonbrigði“ hélt hann svo áfram.

Þrátt fyrir tap og slaka frammistöðu manni fleiri er margt jákvætt sem Heimir tekur úr leiknum. Þá sagði hann varnarleik liðsins líta mun betur út en á sama tíma í fyrra. 

„Mér fannst við að mörgu leyti góðir. En það er eitt að vera góður og annað að fá eitthvað fyrir það. Við fengum ekkert fyrir en það er framför á liðinu síðan mótið byrjaði. Erum að spila við besta lið Íslands á þeirra heimavelli, getum tekið ýmislegt jákvætt með okkur.“

„Mér finnst hann [varnarleikurinn] betri núna en á sama tíma í fyrra, ég held við séum búnir að fá á okkur 9 mörk í 6 leikjum. Það voru örugglega 12 eða 15 mörk í fyrra“ sagði Heimir að lokum. 
Fleiri fréttir

Sjá meira


×