Forsvarsmenn Úkraínska hersins sögðu frá því dag að árásin í morgun hefði byrjað á stórskotaliðsárásum og loftárásum á varnarlínu Úkraínumanna. Í kjölfarið hafi rússneskir hermenn á bryn- og skriðdrekum reynt að brjóta sér leið í gengum varnirnar en sú sókn hafi verið stöðvuð.
Minnst tveir óbreyttir borgarar eru sagðir hafa fallið í árásunum í morgun.
Ríkisstjóri Karkívhéraðs sagði í morgun að rússneskir hermenn gerðu árásir í tiltölulega fámennum hópum og væru að leita að veikleikum á vörnum Úkraínumanna á svæðinu.
Seinna í dag sagði Vólódímír Selenskí, forseti Úkraínu, að harðir bardagar ættu sér nú stað á svæðinu norður af Karkív. Hann sagði Rússa hafa átt í undirbúningi fyrir umfangsmikla sókn í vor eða í sumar og að mögulega myndu fleiri rússneskir hermenn verða sendir til Karkív í kjölfarið, samkvæmt frétt Reuters.
The aftermath: pic.twitter.com/pt7OJGjM6x
— OSINTtechnical (@Osinttechnical) May 10, 2024
Heimildarmaður Reuters í úkraínska hernum segir Rússa hafa sótt um kílómetra inn í Úkraínu nærri bænum Vovchansk, en þar voru loft- og stórskotaliðsárásirnar gerðar í nótt og í morgun. Hann sagði talið að markmið Rússa væri að sækja fram um tíu kílómetra inn í Úkraínu til að mynda einhverskonar öryggissvæði.
Vladimír Pútín, forseti Rússlands, sagði í mars að hann vildi mynda öryggissvæði inn í Karkív-héraði, vegna árása hópa rússneskra manna inn í Rússland.
Karkív er næststærsta borg Úkraínu og myndi það reynast Rússum erfitt að hernema hana. Árásin felur þó í sér að Úkraínumenn, sem eiga við manneklu að etja, þurfa að dreifa enn frekar úr hersveitum sínum.
Hermenn sem sitja fastir í skotgröfum við Karkív geta ekki aðstoðað við varnir Úkraínumanna í austurhluta landsins, þar sem helstu árásir Rússa eiga sér stað og þar sem Rússar hafa sótt hægt og rólega fram á undanförnum vikum.
Reknir frá Karkív 2022
Snemma í innrás Rússa í Úkraínu lögðu þeir hald á stóran hluta Karkívhéraðs og sátu um höfuðborg héraðsins, sem er einungis í um þrjátíu kílómetra fjarlægð frá landamærum Rússlands. Þeir voru þó reknir á brott frá mestöllu héraðinu síðar árið 2022.
Rússar hafa verið að sækja í sig veðrið á undanförnu ári, samhliða manneklu hjá Úkraínumönnum og skorti á skotfærum. Skortur á skotfærum fyrir stórskotalið og loftvarnarkerfi hefur skipt Úkraínumenn miklu.
Eftir að borgin Avdívka féll í hendur Rússa fyrr á þessu ári hafa rússneskir hermenn sótt hægt fram á nokkrum stöðum í austurhluta Úkraínu. Sóknir Rússa gefa til kynna að markmið þeirra sé að ná restinni af Dónetsk- og Lúhansk-héruðum, sem saman mynda Donbassvæðið svokallaða.
Annars vegar hafa Rússar sótt fram vestur af Avdívka og hins vegar vestur af Bakmút. Helstu átakasvæðin í austurhluta landsins má sjá á meðfylgjandi kortum frá hugveitunni Institute for the study of war.
2/ Geolocated footage published on May 9 shows that Russian forces have advanced in eastern Krasnohorivka (west of Donetsk City) along Tchaikovsky Street. https://t.co/kwdmu8MOWH pic.twitter.com/9WS5MKgN6R
— Institute for the Study of War (@TheStudyofWar) May 10, 2024