Enski boltinn

Slapp við rautt þrátt fyrir fólsku­brot: „Ein­hver þarf að út­skýra þetta fyrir mér“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Eins og sjá má fór Nicolas Jackson ansi harkalega í Takehiro Tomiyasu.
Eins og sjá má fór Nicolas Jackson ansi harkalega í Takehiro Tomiyasu.

Nicolas Jackson, framherji Chelsea, þótti vera heppinn að sleppa við rautt spjald þegar hann braut illa á Takehiro Tomiyasu í leiknum gegn Arsenal í gær. Skytturnar unnu 5-0 stórsigur.

Leandro Trossard kom Arsenal yfir á 4. mínútu. Fimm mínútum síðar traðkaði Jackson á ökklanum á Tomiyasu sem lá eftir.

Arsenal fékk aukaspyrnu en Jackson fékk ekki einu sinni gult spjald fyrir brotið, þrátt fyrir að það hafi verið skoðað í VAR-herberginu.

Jackson þótti sleppa ansi billega og margir furðuðu sig á því að Senegalinn hafi ekki verið rekinn út af. Meðal þeirra var Rio Ferdinand sem var álitsgjafi um leikinn á TNT.

„Einhver þarf að útskýra þetta fyrir mér!“ sagði Ferdinand forviða.

Staðan var 1-0 í hálfleik en eftir hlé bætti Arsenal fjórum mörkum við. Ben White og Kai Havertz skoruðu tvö mörk hvor.

Arsenal er með þriggja stiga forskot á toppi ensku úrvalsdeildarinnar en Chelsea er í 9. sæti.

Jackson, sem Chelsea keypti frá Villarreal fyrir tímabilið, hefur skorað tíu mörk í ensku úrvalsdeildinni í vetur.


Tengdar fréttir

Segir sína menn ekki verð­skulda Evrópu­sæti

„Arsenal er á þeim sem stað sem við viljum vera á. Við viljum vera á öðrum stað á næstu leiktíð en við erum nú,“ sagði Mauricio Pochettino, þjálfari Chelsea, eftir 5-0 tap gegn Arsenal í ensku úrvalsdeild karla í fótbolta.

Segir sitt hlut­verk að fá leik­menn til að trúa á verk­efnið

„Mjög ánægður með sigurinn, með magnið af færum sem við sköpuðum, mörkin sem við skoruðum og að halda marki okkar hreinu,“ sagði Mikel Arteta eftir 5-0 stórsigur Arsenal á Chelsea. Sigurinn lyfti Skyttunum upp á topp ensku úrvalsdeildarinnar, um stund allavega.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×