Erlent

Ísraelar gera á­rás á Íran

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Árásin virðist meðal annars hafa beinst að herstöð nærri borginni Isfahan.
Árásin virðist meðal annars hafa beinst að herstöð nærri borginni Isfahan. Getty

Ísraelar gerðu árás á Íran í morgun samkvæmt tveimur ísraelskum og þremur írönskum embættismönnum. Árásin er sögð hafa beinst gegn herstöð nærri borginni Isfahan.

New York Times greinir frá þessu.

Umfang árásarinnar er óljóst en að sögn írönsku embættismannanna var hún framkvæmd með litlum drónum, sem voru mögulega sendir á loft innan Íran. Ratsjárkerfi hafi ekki numið loftför koma inn í íranska lofthelgi.

Þá eru drónar sagðir hafa verið skotnir niður í Tabriz, um það bil 804 kílómetra norður af Isfahan.

Samkvæmt miðlum í Íran heyrðust spreningar nærri báðum borgum en það hefur verið staðfest að kjarnorkuver í Isfahan hafi ekki orðið fyrir árás. Vefsíður sem fylgjast með flugumferð sýndu í kjölfarið hvernig farþegavélum var beint frá svæðinu og þá ku nokkrum flugvöllum hafa verið lokað.

Innan nokkurra klukkustunda hóf íranska ríkissjónvarpið hins vegar að senda út myndir af daglegu lífi ganga sinn vanagang í Isfahan og þá var greint frá því að öllum flugtakmörkunum hefði verið aflétt.

Um er að ræða fyrstu hefndaraðgerðir Ísraela eftir árásir Írana fyrir tæpri viku. Erlendir leiðtogar höfðu hvatt Ísraela til að sýna stillingu til að forðast frekari stigmögnun.

Ísraelar eru sagðir hafa látið Bandaríkjamenn vita í gær að von væri á aðgerðum á næstu 24 til 48 klukkustundum. Ísraelsher hefur ekki tjáð sig um aðgerðirnar enn sem komið er.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×