Erlent

Mega koma til að snæða í Grinda­vík en að­eins í rútu

Kjartan Kjartansson skrifar
Grindavík er enn hamfarasvæði með virku eldgosi. Ferðamenn geta engu að síður heimsótt bæinn til að borða á veitingastöðum samkvæmt nýjum reglum.
Grindavík er enn hamfarasvæði með virku eldgosi. Ferðamenn geta engu að síður heimsótt bæinn til að borða á veitingastöðum samkvæmt nýjum reglum. Vísir/Arnar

Ferðamenn fá leyfi til þess að fara til Grindavíkur en eingöngu í skipulögðum rútuferðum á veitingastaði samkvæmt nýjum reglum sem lögreglan hefur gefið út. Aðkomufólki verður áfram bannað að ferðast á eigin vegum til bæjarins.

Reglurnar eiga að hjálpa einstaka veitingastöðum í Grindavík að finna sér rekstrargrundvöll og auka þannig framboð þjónustu í bænum, að því er segir í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurnesjum.

Ferðamenn þurfa að eiga pantað borð á veitingastað í Grindavík og koma í skipulögðum ferðum í hópferðabílum samkvæmt reglunum. Þeir þurfa að sýna staðfestingu á borðapöntun við lokunarpósta við bæinn.

Leggja þarf rútum þannig að auðvelt sé að koma fólki um borð og út um flóttaleiðir ef til rýmingar kemur. Ferðamönnum er stranglega bannað að fara inn fyrir sérmerktar girðingar og lokanir í kringum sprungur og holrými sem mynduðust í jarðhræringum síðustu mánaða.

Fyrir utan veitingastaðina mega ferðamenn aðeins fara út úr rútum á tveimur skilgreindum útsýnisstöðum, annars vegar á plani bak við GEO-hótel að Víkurbraut og hins vegar við Melhólsnámu við Grindavíkurveg.

Grindavíkurvegur var opnaður fyrir umferð bæjarbúa, þeirra sem starfa í bænum og viðbragðsaðila í síðustu viku. Aðrir geta aðeins ekið veginn að afleggjara að virkjun HS Orku í Svartsengi.


Tengdar fréttirAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×