Erlent

Guter­res hvetur til stillingar en Ísraelar vilja hefndir

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Varnarkerfi Ísraela og bandamanna þeirra náðu að koma í veg fyrir að næstum allar skotflaugar Íran lentu á skotmörkum sínum. Daglegt líf í Ísrael komst þannig fljótt aftur í fastar skorður.
Varnarkerfi Ísraela og bandamanna þeirra náðu að koma í veg fyrir að næstum allar skotflaugar Íran lentu á skotmörkum sínum. Daglegt líf í Ísrael komst þannig fljótt aftur í fastar skorður. AP/Leo Correa

Antonio Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna varar stríðandi fylkingar í Miðausturlöndum við því að auka við spennuna á svæðinu, sem hafi verið yfirdrifin fyrir. 

Guterres tók til máls á fundi Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna í gærkvöldi þar sem drónaárás Írans á Ísrael var til umræðu.

Fulltrúi Ísraela krafðist þess hinsvegar að Íranir yrðu beittir öllum mögulegum þvingunum í kjölfar árásanna. 

Rúmlega 300 drónum og eldflaugum var skotið á Ísrael í hefndarskyni fyrir loftárás sem þeir gerðu á sendiráð Írans í Líbanon. Sjö ára stúlka sem særðist lífshættulega virðist hafa verið eina fórnarlamb árása Írana.

Ísraelar búa yfir öflugum loftvörnum auk þess sem Bandaríkjamenn, Bretar og Frakkar komu til aðstoðar og skutu einnig niður dróna. 

Ísraelski sendiherrann kallaði eftir aðgerðurm og sagði að nú þurfi heimurinn Churchill en ekki Chamberlain, og vísaði þar til fyrrverandi forsætisráðherra Breta, sem þótti linur í garð Adolfs Hitler við upphaf Síðari heimsstyrjaldar áður en Churchill kom til sögunnar. 

Ísraelar hafa heitið hefndum en segjast munu grípa til aðgerða þegar þeim hentar.

Sendiherra Írans hjá Sameinuðu þjóðunum sagði hinsvegar að árásin hefði verið nauðsynleg og í réttu hlutfalli við alvarleika málsins. Hann bætti því við að Íran vildi ekki stríð á svæðinu. Þó myndi íranska þjóðin bregðast við yrði á hana ráðist.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×