Íslenski boltinn

Hugsaði heim til konunnar og barnsins: „Vorum allir í sjokki“

Aron Guðmundsson skrifar
Mynd af vettvangi óhappsins. Bifreiðin, sem flutti leikmenn Vestra heim til Ísafjarðar, sést þarna utan vegar á hvolfi. Betur fór en á horfðist og sluppu allir leikmenn án teljandi meiðsla frá óhappinu
Mynd af vettvangi óhappsins. Bifreiðin, sem flutti leikmenn Vestra heim til Ísafjarðar, sést þarna utan vegar á hvolfi. Betur fór en á horfðist og sluppu allir leikmenn án teljandi meiðsla frá óhappinu Aðsend mynd

Betur fór en á horfðist þegar að bif­reið, sem flutti nokkra leik­menn Bestu deildar liðs Vestra, valt og endaði utan vegar í krefjandi færð þegar liðið hélt heim á leið til Ísa­fjarðar eftir leik gegn Fram um síðast­liðna helgi. Flytja þurfti einn leik­mann liðsins, Sergine Modou Fall, á sjúkra­hús en hann var skömmu síðar út­skrifaður eftir skoðun og ber sig nú vel.

„Eftir leik var fluginu okkar heim til Ísa­fjarðar af­lýst vegna slæmra veður­skil­yrða. Leik­menn áttu mögu­leika á því að vera á­fram í Reykja­vík yfir eina nótt en þar sem að ég á eigin­konu og barn á Ísa­firði þá vildi ég komast sem fyrst til þeirra,“ segir Sergine Modou Fall í samtali við Vísi.

„Veðrið á leiðinni var alls ekki gott. Færðin var á þann veg að við þurftum að fara lengri leiðina til Ísa­fjarðar og þegar að við komum til Hólma­víkur hafði veðrið versnað. Á einum tíma­punkti missir bíl­stjórinn stjórnina á bílnum í þessum erfiðu að­stæðum. Það var snjór og hálka á veginum, blint, og við enduðum utan vegar og bíllinn valt. Endaði á hvolfi.“

„Það er ekkert sem bíl­stjórinn hefði geta gert öðru­vísi. Að­stæðurnar voru bara hrika­lega erfiðar. Svo gerist þetta svo fljótt. Ég áttaði mig ekki einu sinni strax á því hvað væri að gerast þar sem að ég sat í aftur­sætinu að horfa á kvik­mynd í símanum mínum.“

Sem betur fer voru allir í bílnum, sem inni­hélt sjö leik­menn Vestra, í bíl­beltum.

„Við vorum skiljan­lega allir í sjokki eftir þetta. Ein­hverjir okkar fóru bara að hlægja í þessum að­stæðum. Eitt­hvað sem má rekja til sjokksins. Sem betur fer var þetta ekki vatn sem við endum í þarna utan vegar eða stór­grýtt svæði. Heldur bara snjór. Við bárum okkur allir vel þarna skömmu eftir bíl­veltuna. Létum ringul­reiðina ekki taka yfir. Panikkuðum ekki því það voru allir heilir. Enginn með opin sár.“

Biðin óþægilega

En við tók rúm­lega hálf­tíma bið eftir næsta bíl á síma­sam­bands­lausu svæði. Leik­mennirnir gátu ekki látið vita af sér. Gátu ekki látið vita af því sem gerst hafði.

„Sem betur fer var annar bíll á eftir okkur því við gátum ekki hringt á við­bragðs­aðila. Far­þegar þess bíls gátu látið vita af því sem gerst hafði. Þetta voru erfiðar að­stæður og bið sem að leið eins og heil ei­lífð. Þegar að bíllinn veltur og við erum í þessum að­stæðum, þá gat ég ekki annað en hugsað bara heim til eigin­konu minnar og barnsins míns. Ég gat ekki einu sinni látið þau vita af mér þarna.

Aðsend mynd

Við­bragðs­aðilar mættu í kjöl­farið á staðinn og var tekin á­kvörðun um að flytja leik­mennina til Hólma­víkur til frekari skoðunar.

„Það komu allir vel út úr þeirri skoðun þrátt fyrir að and­lega hliðin hafi kannski fengið smá högg. Ég fann hins vegar fyrir sárs­auka í rif­beinunum. Læknirinn skoðaði það og óttaðist að mér gæti farið að blæða inn­vortis og vildi hann því senda mig suður til Reykja­víkur með sjúkra­bíl.“

Vegirnir á þeirri leið höfðu hins vegar lokast og farið var í það að opna þá svo sjúkra­bíllinn gæti flutt Fall suður á sjúkra­hús.

„Ég varði einni nótt á sjúkra­húsinu í Reykja­vík. Læknarnir vildu full­vissa sig um að það yrðu engin eftir­köst af þessu bíl­slysi fyrir mig. Ég var síðan út­skrifaður næsta dag.“

Og Fall færir okkur góðar fréttir. Honum líður vel, er byrjaður að æfa á nýjan leik með Vestra og er klár í að mæta Breiða­bliki í Bestu deildinni seinna í dag.

Ekki bara liðsfélagar, heldur bræður

Í frétta­flutningi af at­vikinu vakti at­hygli að Elmar Atli Garðars­son, Súð­víkingur og fyrir­liði Vestra, fylgdi Fall til Reykja­víkur á sjúkra­hús. Stað­reyndin er hins vegar sú að sam­band Fall og Elmars nær langt út fyrir það að vera bara liðs­fé­lagar. Þeir líta á sig sem bræður hvors annars.

Fall og Elmar Atli í baráttunni með Vestra. Elmar Atli er fyrirliði liðsinsVísir/Diego

„Það er mjög auð­velt fyrir mig að tala vel um Elmar. Þetta byrjaði allt saman árið 2015 þegar að ég kom fyrst vestur. Þá sem leik­maður á reynslu hjá BÍ/Bolungar­vík sem nú er Vestri. Elmar var á þeim tíma einn af yngstu leik­mönnum liðsins og tók mig eigin­lega strax undir sinn verndar­væng. Hann sá um mig. Ég kom þarna vestur og kunni varla stakt orð í ensku. Átti því í erfið­leikum með að vera í sam­skiptum við aðra þarna.

Þegar að um­ræddu tíma­bili lauk þarna 2015 þá hélt ég aftur heim en fékk svo annan samning hjá Vestra og sneri aftur til Ísa­fjarðar þarna um jólin 2015 og bjó á þeim tíma einn fyrir vestan. Elmar bauð mér að koma til sín og fjöl­skyldu sinnar og halda með þeim jól.

Það var ansi sér­stakt fyrir mig, að fá að upp­lifa jólin, þar sem að ég er mús­limi og held alla jafna ekki upp á jólin. Elmar bauð mér þarna að koma inn á heimili sitt og fjöl­skyldu sinnar, á mesta fjöl­skyldu­tíma ársins, og verja tíma með þeim. Það skipti mig ó­trú­lega miklu máli. Frá þessum tíma hefur sam­band okkar bara orðið sterkara og sterkara. Og for­eldrar Elmars kalla mig son sinn, þau hafa verið mér mikill stuðningur í gegnum allan þennan tíma “

Fjölskylda Elmars Atla hefur tekið vel utan um Fall frá því að hann mætti fyrst vestur á firði. Hér er hann fyrir nokkrum árum með Elmari Atla og bróður hans SigurgeiriAðsend mynd

En Elmar sýnir Fall ekki bara svona stuðning og hlýju.

„Elmar er þannig manneskja að hann er til í að hjálpa öllum sem eru hjálpar­þurfi. Ef ein­hver þarf á hjálp að halda þá væri Elmar maðurinn sem myndi mæta á staðinn og hjálpa þér. Allir hér vita hversu góðan mann og gott hjarta­lag Elmar hefur að geyma.“

Fall hefur reynt fyrir sér á fleiri stöðum á leik­manna­ferlinum en leiðin liggur ein­hvern veginn alltaf aftur vestur á Ísa­fjörð.

„Árið 2018 reyndi ég fyrir mér með liði ÍR. Svo hélt ég einnig út til Óman að spila fót­bolta á sínum tíma. En í hvert skipti sem ég fer eitt­hvað er ég látinn vita af því að dyrnar séu opnar fyrir mig hjá Vestra fyrir vestan. Ég lít á Ísa­fjörð og svæðið fyrir vestan sem mitt heimili. Í hvert sinn sem ég held eitt­hvað annað þá finn ég á endanum fyrir söknuði og vill ekkert nema að snúa aftur vestur. Sakna svæðisins og fólksins sem það hefur að geyma.“

Horfðu á mig og treystu mér

„Þegar að slysið átti sér stað. Var það Elmar sem hvatti mig til þess að fara til Reykja­víkur og frekari skoðun á sjúkra­húsi. Ég hélt því bara fram að það væri í lagi með mig, var í á­kveðnu sjokki og taldi mig bara í lagi. Áttaði mig ekki fylli­lega á að­stæðunum en sem betur fer var Elmar á­kveðinn og sagði við mig:

„Horfðu á mig. Ef það gerist eitt­hvað á leiðinni þá verð ég til staðar fyrir þig. Það er fullt af fólki annt um þig og það er fyrir bestu að þú látir kíkja á þig. Ekki hafa á­hyggjur. Ég verð hérna til staðar fyrir þig.“
„Ég á­kvað því að láta slag standa og fara til Reykja­víkur og það var gott að vita til þess að Elmar stæði þétt við bakið á mér alla leið. Sér í lagi í gegnum þessa rúmu fjórar klukku­stundir sem það tók að flytja okkur með sjúkra­bíl til Reykja­víkur.“

Elmar Atli og Fall deila sterku sambandi sem nær út fyrir fótboltavöllinnAðsend mynd

Ég er svo þakk­látur fyrir að hafa kynnst honum í gegnum þetta fót­bolta­brölt mitt. Hann er á­byggi­lega stærsta á­stæðan fyrir því að ég er enn þá hérna á Ís­landi að spila. Þrátt fyrir að ég hafi reynt fyrir mér annars staðar þá höfum við alltaf haldið góðu sam­bandi. Sam­band sem nær út fyrir fót­boltann. Og það sama gildir um syst­kini hans og for­eldra. Þetta er mín fjöl­skylda fjarri heima­högum mínum í Senegal.“

Og er Fall spenntur fyrir fram­haldinu með liði Vestra í Bestu deildinni. Þrátt fyrir tap í fyrstu um­ferð gegn Fram eru leik­menn liðsins hvergi bangnir. Hafa fulla trú á góðu gengi í fram­haldinu. Eru ekki hræddir við neitt lið í deildinni.

Breiða­blik og Vestri eigast við í Bestu deildinni í Beinni út­sendingu á Subway deildar rás Stöð 2 Sport klukkan tvö í dag.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×