Íslenski boltinn

Fá­rán­legar legg­hlífar nýjasta leik­manns HK

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Nunn og legghlífarnar frægu.
Nunn og legghlífarnar frægu. Samsett

George Nunn gekk nýverið í raðir HK og mun spila með liðinu í Bestu deild karla í knattspyrnu í sumar. Um er að ræða enskan framherja sem á einhverjar áhugaverðustu legghlífar sem sögur fara af.

Hinn 22 ára gamli Nunn er uppalinn hjá Crewe Alexandra en fór ungur að árum til Chelsea og lék með yngri liðum félagsins í fjögur ár. Greiddi Chelsea 300 þúsund pund (tæpar 53 milljónir íslenskra króna) fyrir framherjann sem lék þó aldrei fyrir aðallið félagsins.

Hann hefur einnig verið á mála hjá Derby County en er nú mættur í Kórinn. Það útskýrir þó ekki af hverju hann lék með legghlífar með mynd af andliti Sean Dyche, þjálfara Everton. 

Enska götublaðið The Sun greinir frá því að árið 2018 hafi Nunn sagt að téður Dyche líti alveg eins út og faðir hans.

Sean Dyche á hliðarlínunni hjá Everton.Chris Brunskill/Getty Images

„Pabbi minn var aldrei mikill fótboltaaðdáandi en hann lítur alveg eins út og Sean Dyche. Hefur það leitt af sér þónokkra brandara okkar á milli í gegnum árin. Pabbi byrjaði meira að segja að senda mér myndir af honum fyrir hvern leik. Ég veit það hljómar undarlega, fékk smáskilaboð í símann þegar ég var hjá Crewe og það var bara mynd af Dyche.

Í staðinn fyrir að fá skilaboð frá honum fyrir hvern leik er ég með Dyche á legghlífunum mínum,“ sagði Nunn að endingu.

Samkvæmt heimildum Vísis þá komu hinar frægu legghlífar ekki með Nunn til Íslands þar sem hann týndi þeim. Þannig Nunn mun því miður ekki getað fagnað sínu fyrsta marki í Bestu deildinni með því að sýna landi og þjóð einar skondnustu legghlífar síðari ára.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×