Íslenski boltinn

Metin sem Patrick Peder­sen ógnar í ís­lenska fót­boltanum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Patrick Pedersen hefur skorað 100 mörk í efstu deild og náði því aðeins í 163 leikjum.
Patrick Pedersen hefur skorað 100 mörk í efstu deild og náði því aðeins í 163 leikjum. Vísir/Diego

Patrick Pedersen varð í gærkvöldi sjötti leikmaðurinn sem nær því að skora hundrað mörk í efstu deild karla á Íslandi.

Hann bætist þar í hóp með þeim Inga Birni Albertssyni (1983), Guðmundi Steinssyni (1993), Tryggva Guðmundssyni (2008), Atla Viðari Björnssyni (2015) og Steven Lennon (2022).

Patrick gæti náð nokkrum metum á næstunni haldi hann áfram að raða inn mörkum fyrir Valsmenn.

Valsliðið er fullt af leikmönnum sem ættu að geta fundið Patrick í vítateignum og það er því allt eins líklegt að mörkin verði talin í tugum hjá honum í sumar.

Hvort að hann verði sá fyrsti til að skora tuttugu mörk á einu tímabili er allt of snemmt að segja en hann ætti að fá leikina og færin til þess.

Þangað til að hann kemst í færi við markametið á einu tímabili í efstu deild þá gæti hann hafa tryggt sér önnur met.

Hér fyrir neðan má sjá metin sem Patrick Pedersen ógnar í íslenska fótboltanum.

Patrick Pedersen hefur skorað öll mörkin sín á Íslandi í Valsbúningnum.Vísir/Hulda Margrét
 • Vantar 1 mark til að jafna 
 • Flest mörk erlends leikmanns í efstu deild á Íslandi
 • (Steven Lennon 101 mark)
 • -
 • Vantar 9 mörk til að jafna
 • Flest mörk fyrir Val í efstu deild
 • (Ingi Björn Albersson 109 mörk)
 • -
 • Vantar 13 mörk til að jafna
 • Flest mörk fyrir eitt félag í efstu deild á Íslandi
 • (Atli Viðar Björnsson 113 mörk fyrir FH)
 • -
 • Vantar 31 mark til að jafna
 • Flest mörk í efstu deild á Íslandi
 • (Tryggvi Guðmundsson 131 mark fyrir ÍBV, KR, FH og Fylki)
 • -
 • Vantar 3 þrennur til að jafna
 • Flestar þrennur í efstu deild á Íslandi
 • (Hermann Gunnarsson 9 þrennur fyrir Val og ÍBA)Fleiri fréttir

Sjá meira


×