Enski boltinn

Segja að Ten Hag muni stýra Man United á næstu leik­tíð

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Ten Hag og félagar unnu frækinn sigur á Liverpool nýverið.
Ten Hag og félagar unnu frækinn sigur á Liverpool nýverið. Robbie Jay Barratt/Getty Images

Erik ten Hag hefur átt sjö dagana sæla sem þjálfari Manchester United á leiktíðinni. Gríðarleg meiðsli sem og vandræði utan vallar hafa herjað á liðið. Undanfarið hefur sá orðrómur farið á kreik að starf hans gæti verið í hættu en Man United segir Hollendinginn öruggan í starfi.

Ten Hag tók við Man Utd fyrir síðustu leiktíð og skilaði liðinu í 3. sæti ensku úrvalsdeildarinnar, alla leið í úrslit ensku bikarkeppninnar sem og liðið vann deildarbikarinn undir hans stjórn.

Núverandi tímabil átti að fara í að stíga enn fleiri skref fram á við en þess í stað hefur liðið tekið skref aftur á bak. Það endaði á botni riðils síns í Meistaradeild Evrópu, féll snemma úr leik í deildarbikarnum og er sem stendur í 6. sæti ensku úrvalsdeildarinnar.

Þar sem það gætu þó fimm ensk lið komist í Meistaradeildina á komandi leiktíð á Man Utd enn möguleika og þá er liðið komið í undanúrslit ensku bikarkeppninnar eftir frækinn sigur á Liverpool.

Undanfarið hafa ýmsir haldið því fram að Ten Hag gæti verið á förum frá Man United. Sir Jim Ratcliffe, nýr minnihluta eigandi í félaginu, vill byggja félagið upp á enskum kjarna og ku renna hýru auga til Gareth Southgate, landsliðseinvalds Englands.

Nú hefur Sky Sports hins vegar greint frá því að starf Ten Hag sé öruggt og Man United sé þegar byrjað að skipuleggja tímabilið 2024-25 með Ten Hag við stjórnvölin. 

Hvort slæmur endir á tímabilinu breyti því á svo eftir að koma í ljós en Man Utd mætir Coventry City í undanúrslitum ensku bikarkeppninnar og lætur sig dreyma um að hoppa upp fyrir Aston Villa eða Tottenham Hotspur í töflunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×