Íslenski boltinn

„Hefur gífur­lega mikla þýðingu fyrir Val og ís­lenskan fót­bolta“

Aron Guðmundsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson og Arnar Grétarsson þjálfari Vals eftir undirskriftina í morgun.
Gylfi Þór Sigurðsson og Arnar Grétarsson þjálfari Vals eftir undirskriftina í morgun. Valur

Börkur Edvardsson, formaður knattspyrnudeildar Vals, segir komu Gylfa Þórs Sigurðssonar til félagsins sé uppskera þeirra gríðarlegrar vinnnu sem farið hefur verið í hjá Val undanfarin ár. Valur væntir mikils af Gylfa Þór. Koma hans sé gríðarleg viðurkenning fyrir félagið. 

Valsmenn greindu frá komu Gylfa Þórs til félagsins í morgun en undanfarna daga hefur hann æft með liðinu úti á Spáni þar sem að Valsmenn eru í æfingaferð fyrir komandi tímabil í Bestu deildinni.

„Þetta hefur gífurlega mikla þýðingu fyrir Val og íslenskan fótbolta í heild sinni,“ sagði Börkur í samtali við Val Pál Eiríksson, íþróttafréttamann. „Líka gaman að uppskera þeirrar miklu vinnu, sem farið hefur í hjá Val undanfarin ár, sé að bera þennan ávöxt.“

Börkur Edvardsson, formaður knattspyrnudeildar Vals.Vísir/Vilhelm

Þá er gaman að tveir af stærstu leikmönnum íslandssögunnar, Gylfi Þór og Eiður Smári, hafi báðir verið á mála hjá Val. Það er gaman að við séum að laða til okkar fótboltamenn af þessu kalíberi. Það er gríðarleg viðurkenning á okkar starfi hér á Hlíðarenda.“

Hefur þetta verið mikil vinna. Hafa þessi skipti átt sér langan aðdraganda?

„Við náttúrulega byrjuðum, eins og hefur komið fram, á síðasta tímabili að ræða saman. Það samtal hélt bara áfram og við höfum verið í góðu samtali við þá feðga í dágóðan tíma. Farið vel á milli okkar. Svo æfir Gylfi Þór núna með okkur úti og þá fóru hlutirnir að ganga hratt fyrir sig.“

Væntanlega mikill gleðidagur á Hlíðarenda í dag?

„Gleðidagur á Hlíðarenda og út um allt samfélagið. Að leikmaður af þessu kalíberi sé að koma heim. Við væntum mikils af honum. Það verður gaman að fylgjast með Gylfa Þór á Hlíðarenda í sumar.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×