Íslenski boltinn

Sam Hew­son yfir­gefur Þrótt

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Sam Hewson, til hægri, við undirskriftina hjá Þrótti.
Sam Hewson, til hægri, við undirskriftina hjá Þrótti. Þróttur Reykjavík

Enski miðjumaðurinn Sam Hewson mun ekki leika með Þrótti Reykjavík á komandi leiktíð í Lengjudeild karla í knattspyrnu.

Frá þessu greindi Kristján Kristjánsson, formaður knattspyrnudeildar Þróttar, á stuðningsmannasíðu félagsins á Facebook. Þar segir að félagið og Sam Hewson hafi skrifað undir starfslokasamning.

Hewson hefur leikið með Þrótti síðan 2021 en þá gekk hann í raðir félagsins sem spilandi aðstoðarþjálfari. Hann fór með liðinu niður í 2. deild þar sem hann skoraði 11 mörk í 17 leikjum er liðið flaug aftur upp í Lengjudeildina.

„Hann hefur verið mikilvægur fyrir okkur, fært okkur reynslu og baráttukraft en líka glímt við meiðsli á löngum köflum. Ákvörðun um starfslok er sameiginleg og við þökkum Sam fyrir hans framlag til Þróttar og óskum honum velfarnaðar í framtíðinni,“ segir Kristján einnig í yfirlýsingu á stuðningsmannasíðu Þróttar.

Hinn 35 ára gamli Sam Hewson – sem er uppalinn hjá Manchester United - hefur spilað hér á landi síðan 2011 þegar hann samdi við Fram. Síðan þá hefur hann leikið með FH, Grindavík, Fylki og nú síðast Þrótti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×