Enski boltinn

Klopp líkti Danns við Littler

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
dannslittler

Eftir sigurinn á Southampton í gær líkti Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, Jayden Danns við ungstirni úr annarri íþrótt.

Danns skoraði tvö mörk eftir að hafa komið inn á sem varamaður þegar Liverpool vann Southampton, 3-0, í ensku bikarkeppninni í gær. Þetta voru fyrstu mörk þessa átján ára leikmanns fyrir Rauða herinn.

Klopp var að vonum ánægður með Danns og hrósaði honum eftir leikinn á Anfield.

„Þetta er svolítið eins og pílustjarnan sem er fínt í kvöld,“ sagði Klopp og vísaði til Lukes Littler sem skaust upp á stjörnuhimininn þegar hann komst í úrslit á HM í pílukasti um áramótin. Klopp hélt svo áfram að mæra Danns.

„Hann er ótrúlega hæfileikaríkur. Það er ekki eðlilegt að átján ára strákur sé svona rólegur eins og hann sýndi í öðru marki Liverpool,“ sagði Klopp.

Danns var sjálfur í skýjunum eftir fyrstu mörkin sín fyrir Liverpool og sigurinn í gær.

„Ég gæti ekki verið ánægðari. Þetta er besti dagur lífs míns,“ sagði Danns við BBC eftir leikinn. „Ég hef horft á Liverpool síðan ég var ungur strákur og að skora tvö mörk fyrir framan Kop stúkuna er meira en mig dreymdi um. Ég gæti ekki verið hamingjusamari.“

Liverpool mætir Manchester United í næstu umferð ensku bikarkeppninnar. Næsti leikur Liverpool er gegn Nottingham Forest í ensku úrvalsdeildinni á laugardaginn.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×