Enski boltinn

„Besti dagur lífs míns“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jayden Danns fagnar öðru marka sinna fyrir Liverpool á Anfield í gærkvöldi.
Jayden Danns fagnar öðru marka sinna fyrir Liverpool á Anfield í gærkvöldi. Getty/ Justin Setterfield

Táningurinn Jayden Danns var heldur betur í skýjunum eftir 3-0 sigur Liverpool á Southampton í ensku bikarkeppninni á Anfield í gærkvöldi.

Danns byrjaði reyndar á varamannabekknum en kom inn á í seinni hálfleiknum og skoraði tvö síðustu mörk Liverpool í leiknum.

Liverpool stillti upp hálfgerðu varaliði í leiknum vegna mikilla meiðsla en ungu strákarnir kláruðu leikinn með glæsibrag.

Fyrra markið skoraði Danns með laglegri vippu eftir sendingu frá Harvey Elliott og hann skoraði síðan aftur undir lokin eftir að hann fylgdi á eftir skoti Conor Bradley.

„Ég gæti ekki verið ánægðari. Þetta er besti dagur lífs míns,“ sagði hinn átján ára gamli Jayden Danns við BBC eftir leikinn. Hann er fæddur í janúar 2006 eða eftir að Liverpool vann endurkomusigurinn í Meistaradeildinni í Istanbul.

„Ég hef horft á Liverpool síðan ég var ungur strákur og að skora tvö mörk fyrir framan Kop stúkuna er meira en mig dreymdi um. Ég gæti ekki verið hamingjusamari,“ sagði Danns.

„Ég fékk nokkur færi til að skora í úrslitaleiknum í deildabikarnum án þess að nýta þau og ég kom inn á í þessum leik staðráðinn í því að klára næsta færi,“ sagði Danns.

„Ég get eiginlega ekki lýst tilfinningunni að fagna marki fyrir framan Kop stúkuna. Þetta er draumur að rætast. Það fyrsta sem kom upp í hugann ver að renna mér á hnjánum. Þetta var ótrúleg upplifun,“ sagði Danns.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×