Íslenski boltinn

Ekki fyrir fram á­kveðin at­burða­rás: „Sá þetta bara í fjöl­miðlum“

Aron Guðmundsson skrifar
Aron Jóhannsson er ekki á förum frá Val. Hann hefur krotað undir nýjan samning við félagið og bundið enda á sögusagnir
Aron Jóhannsson er ekki á förum frá Val. Hann hefur krotað undir nýjan samning við félagið og bundið enda á sögusagnir Vísir/Arnar Halldórsson

Eftir nokkurt ó­­vissu­­tíma­bil hefur Aron Jóhanns­­son skrifað undir nýjan samning við Bestu deildar lið Vals. Breiða­blik reyndi að kló­­festa miðju­manni reynda en án árangurs. Hann þver­­tekur fyrir að um fyrir fram á­­kveðna at­burða­rás hafi verið að ræða, af sinni hálfu, til þess að vænka samnings­stöðu sína gagn­vart Val.

„Ég er bara spenntur fyrir komandi tímum og á­nægður með þetta. Þessu ó­vissu­stigi er nú lokið. Ég verð hérna alla­vegana næstu árin,“ segir Aron í sam­tali við Vísi en nýr samningur hans við Val gildir til næstu tveggja ára.

Þú talar um ó­vissu­stig. Fyrri samningur þinn við við Val var að nálgast sinn enda­punkt og Breiða­blik lagði fram kaup­til­boð í þig. Var ein­hver ó­vissa af þinni hálfu gagn­vart því að þú myndir vera á­fram mála hjá Val eða færa þig um set?

„Það voru ein­hverjir orð­rómar í gangi og maður reynir bara að pæla sem minnst í þeim. En ég er á­nægður með þessa niður­stöðu, er spenntur fyrir komandi tímum hér. Við erum spenntir fyrir næsta tíma­bili og viljum gera betur en í fyrra.

Voru ein­hver meiri sam­skipti á milli þarna við Breiða­blik. Var þetta kostur sem þú varst að skoða?

„Til­boðinu var hafnað. Ég segi nú kannski ekki að ég hafi frétt af þessu síðastur en ég fékk alla­vegana að vita þetta á svipuðum tíma og flestir aðrir. Ég sá þetta bara í fjöl­miðlum, sá líka seinna í fjöl­miðlum að til­boðinu hefði verið hafnað og var ekkert rosa­lega mikið að pæla í þessu. Svo fer af stað at­burða­rás sem endar með því að ég skrifa undir nýjan samning hér við Val. Ég er sáttur með þessa niður­stöðu.“

Stjörnuleikur umboðsmannsins?

Staða Arons hefur verið mikið til um­ræðu upp á síð­kastið enda um að ræða einn besta leik­mann Bestu deildar og því ætti það ekki að koma á ó­vart að fé­lög væru að horfa hýru auga til hans með til­liti til samnings­stöðu hans.

Í hlað­varps­þættinum Dr. Foot­ball var nýjum samningi Arons við Val lýst sem stjörnu­leik hjá um­boðs­manni hans. Á­hugi Breiða­bliks hafi verið settur af stað með það sem mark­mið að fá nýjan samning fyrir Aron á Hlíðar­enda.

Var þetta fyrir fram á­kveðin at­burða­rás hjá þér og um­boðs­manni þínum með það fyrir augum að koma þér í betri samnings­stöðu?

„Nei. Alla­vegana ekki af minni hálfu. Ég er með um­boðs­mann að vinna fyrir mig. Hann hefur unnið fyrir mig í mörg ár og er á­stæðan fyrir því að sú um­boðs­skrif­stofa er sú besta á landinu. Þeir eru að vinna sína vinnu. Í lokin eru þeir með sáttan leik­mann og þetta gekk allt eftir held ég.“

Aron í leik með Val Vísir/Diego

Skýr markmið

Aron sneri aftur hingað heim til Ís­lands fyrir tveimur árum síðan en fé­laginu hefur á þeim tíma ekki tekist að ná sínu aðal mark­miði. Að standa uppi sem meistari.

„Við höfum gengið í gegnum svona upp og niður tíma­bil. Við viljum vinna alla titla sem í boði eru. Frá því að ég kom heim höfum við ekki náð að gera það. Við erum með skýr mark­mið fyrir þetta tíma­bil, að standa uppi með einn eða titla að því af­loknu.“

Til þess að það gerist munu Vals­menn þurfa að skáka liðum á borð við ríkjandi Ís­lands- og bikar­meistara Víkings Reykja­víkur sem hlupu í burtu með Ís­lands­meistara­titilinn á síðasta tíma­bili.

Arnar Grétarsson er þjálfari ValsVísir/Pawel Cieslikiewicz

Valur endaði það tíma­bil í öðru sæti en telur Aron að liðið sé betur í stakk búið til þess að berjast við Víkinga á komandi tíma­bili?

„Já. Maður tekur hatt sinn ofan fyrir Víkingum og frammi­stöðu þeirra á síðasta tíma­bili. Þeir áttu frá­bært ár og eru núna liðið sem þarf að skáka. Við erum að undir­búa okkur fyrir það að vera í bar­áttunni við þá. Svo eru lið eins og Breiða­blik og Stjarnan sem eru að koma vel inn í þetta líka.“

Ég held að þetta verði virki­lega skemmti­legt tíma­bil, verði jafnara heldur en upp á síð­kastið og vonandi verður það svo­leiðis. En þótt að ég voni að þetta verði spennandi, þá vona ég líka á sama tíma að við stöndum uppi sem sigur­vegarar í lokin.“

Einn af mörgum þáttum sem heilla við Val 

Aron hafði nýlokið æfingu með Val þegar að hann ræddi við í­þrótta­deild Vísis og Stöðvar 2 en Vals­menn æfa alltaf fyrir há­degi, eitt­hvað sem verður að teljast ansi ó­venju­legt hér á landi en á sama tíma afar heillandi, líkt og Aron lætur í ljós uppi.

„Mér finnst það klár­lega. Á­stæðan fyrir því að það er gott að vera hér á Hlíðar­enda, ein af mörgum, er sú að við æfum fyrir há­degi. Flestir okkar, sér í lagi eldri strákarnir, erum með fjöl­skyldu og börn og því er þetta mjög hentugur tími fyrir okkur og klár­lega að­lagandi punktur fyrir það að vera hér í Val. Maður fær að vera meira heima, getur verið að sækja krakkana í skólann og verja meiri tíma með fjöl­skyldunni.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×