Enski boltinn

Afi eins af krökkunum hans Klopps söng og dansaði í Euro­vision

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Jayden Danns með deildabikarinn.
Jayden Danns með deildabikarinn. getty/Robbie Jay Barratt

Jayden Danns, einn af krökkunum hans Jürgens Klopp sem spiluðu úrslitaleik enska deildabikarsins, á ansi athyglisverðan afa.

Danns kom inn á sem varamaður í framlengingunni í leiknum gegn Chelsea á Wembley. Undir lok hennar skoraði Virgil van Dijk, fyrirliði Liverpool, eina mark leiksins.

Í leikslok var meðalaldur leikmanna Liverpool aðeins 22 ár. Hinn tvítugi Conor Bradley byrjaði leikinn en í framlengingunni komu Bobby Clark (19 ára), Jayden Danns (18), James McConnell (19) og Jarell Quansah (21) allir inn á sem varamenn. Þá var hinn tvítugi Harvey Elliott einnig inn á en hann hefur verið lengur í aðalliðinu en hinir.

Danns er framherji sem er fæddur í Liverpool 16. janúar 2006. Hann lék sinn fyrsta leik fyrir aðallið Liverpool í 4-1 sigrinum á Luton Town á dögunum og lagði þá upp mark fyrir Elliott.

Pabbi Danns, Neil, var einnig fótboltamaður og fór víða á löngum ferli. Hann lék síðast með Macclesfield og var spilandi þjálfari liðsins. Þá lék hann 25 landsleiki fyrir Gvæjana og skoraði ellefu mörk.

Neil Danns í leik með Gvæjana í Gullbikarnum.getty/Matthew Ashton

Pabbi Neils og afi Jaydens var einnig íþróttamaður en hann varð Evrópumeistari á hjólabretti. En honum var fleira til lista lagt. 

Neil eldri var meðal annars bakraddasöngvari í framlagi Breta til Eurovision 1987. Lagið nefndist „Only the Light“ og var flutt af skoska tónlistarmanninum Rikki, eða Richard Winters Peebles. Sjá má flutning hans og Neils eldri á laginu hér fyrir neðan.

„Only the Light“ endaði í 13. sæti af 22 lögum í Eurovision 1987. Bretar fengu 47 stig. Ísraelar gáfu þeim flest stig, eða tíu stig. Rikki fékk ekkert stig frá Íslandi sem endaði í sínu 16. sæti í þessari keppni. Halla Margrét Árnadóttir flutti lagið „Hægt og hljótt“ fyrir Íslands hönd.

Dóttir Neils yngri og barnabarn Neils eldri, Hayla, tók þátt í krakkaEurovision fyrir hönd Breta í fyrra. Hún flutti lagið „Back to Life“ ásamt stúlknasveitinni Stand Uniqu3.


Tengdar fréttir

Segist aldrei hafa unnið jafn ein­stakan titil

Jürgen Klopp hefur staðið uppi sem Englands-, Þýskalands- og Evrópumeistari á ferli sínum sem knattspyrnuþjálfari en sigur Liverpool á Chelsea í úrslitum enska deildarbikarsins ber höfuð og herðar yfir hina samkvæmt viðtali Þjóðverjans að leik loknum.

„Þurfa að finna sárs­aukann“

„Við sköpuðum fjögur til sex frábær færi en tókst ekki að skora,“ sagði heldur súr Mauricio Pochettino eftir 0-1 tap sinna manna í Chelsea gegn Liverpool í úrslitum enska deildarbikarsins í dag. Chelsea kom boltanum vissulega einu sinni í netið en markið var dæmt af vegna rangstöðu.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×