Enski boltinn

Þrenna Bowen sá um Brent­ford

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Kom, sá, skoraði og sigraði.
Kom, sá, skoraði og sigraði. Vince Mignott/Getty Images

Jarrod Bowen var allt í öllu hjá West Ham United þegar Hamrarnir unnu 4-2 sigur á Brentford í eina leik kvöldsins í ensku úrvalsdeild karla í knattspyrnu. 

West Ham tók á móti Brentford í sannkölluðum Lundúnaslag en bæði lið þurftu á sigri að halda. Hamrarnir til að blanda sér í Evrópubaráttu og Brentford til hrista falldrauginn af sér.

Bowen byrjaði sem fremsti maður og þegar aðeins sjö mínútur voru liðnar var hann búinn að skora tvö mörk. Bæði komu eftir sendingu frá bakvörðum West Ham, Vladimír Coufal og Emerson.

Gestirnir gáfust þó ekki upp og Neal Maupey jafnaði metin eftir undirbúning Keane Lewis-Potter á 13. mínútu. Eftir það róaðist leikurinn og staðan var enn 2-1 þegar flautað var til loka fyrri hálfleiks.

Það var svo á 63. mínútu sem Bowen gerði endanlega út um leikinn þegar hann skallaði knöttinn í netið af stuttu færi eftir frábæra fyrirgjöf Mohammed Kudus frá hægri. Hans fyrsta þrenna á ferlinum.

Örskömmu síðar fullkomnaði Emerson svo sigurinn með glæsilegi marki. Boltinn barst til hans rétt fyrir utan D-bogann, vinstri bakvörðurinn stillti sig af og smellti boltanum upp í samskeytin fjær. 

Frábært mark og staðan orðin 4-1. Gestunum tókst að minnka muninn en það gerði Yoane Wissa með fínu skoti fyrir utan teig. Staðan orðin 4-2 og það reyndust lokatölur í Lundúnum þrátt fyrir að Brentford hafi sótt stíft undir lok leiks.

Eftir sigur kvöldsins eru Hamrarnir í 8. sæti með 39 stig eftir 26 leiki, jafn mörg stig og Brighton & Hove Albion sem er sæti ofar. Manchester United situr í 6. sæti með 44 stig. Brentford er á sama tíma í 16. sæti með 25 stig, aðeins fimm stigum fyrir ofan fallsæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×