Enski boltinn

Þjálfarinn sá fjór­tán ára Roon­ey á leið á skrallið með á­fengi og sígarettur

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Wayne Rooney og Sir Alex Ferguson á góðri stundu. Saman unnu þeir fjöldann alla af titlum hjá Manchester United.
Wayne Rooney og Sir Alex Ferguson á góðri stundu. Saman unnu þeir fjöldann alla af titlum hjá Manchester United. John Peters/Getty Images

Wayne Rooney, markahæsti leikmaður í sögu Manchester United og um tíma markahæsti leikmaður enska landsliðsins, fór yfir víðan völl í viðtalsþættinum Stick to Football á dögunum.

Þar ræddi hann hvernig það var að alast upp í Liverpool en hann hóf ferilinn með Everton. Þá sagði hann sögu af því þegar hann var gripinn glóðvolgur á leið á djammið aðeins 14 ára gamall.

Rooney skaust upp á stjörnuhimininn aðeins 16 ára gamall þegar hann braut sér leið inn í aðallið Everton og skoraði meðal annars stórbrotið sigurmark gegn Arsenal, þá besta liði Englands. Hann var svo orðin skærasta stjarna Englands aðeins 18 ára og var hreint út sagt magnaður á Evrópumótinu 2004.

Í þættinum ræðir Rooney, sem var gríðarlega bráðþroska, hvernig það var að alast upp í Liverpool-borg. Hann segir lífið ekki hafa verið dans á rósum og hann hafi snemma verið farinn að gera hluti sem ungir drengir ættu ekki að gera.

„Ég elskaði samt að alast upp þarna. Það kenndi manni marga ólíka hluti. Ég man þegar var 14 ára gamall, það var fimmtudagur ef ég man rétt og leikur á laugardegi með U-19 ára liðinu.“

„Ég er að rölta yfir götu með poka af síder og pakka af sígarettum. Þá var bara Colin Harvey, þjálfari U-19 ára liðsins, að keyra bílinn sem stoppaði til að hleypa mér yfir götuna.“

Rooney hefur áður tjáð sig um drykkju sína. Hann byrjaði ungur að drekka og viðurkennir að hann hafi drukkið alltof mikið áfengi á meðan ferli sínum stóð. Jafnframt segir hann að það hafi augljóslega tekið sinn toll.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×