Íslenski boltinn

Valur vann báðar Drago-stytturnar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Valskonur voru ekki bara bestar því þær voru líka prúðastar.
Valskonur voru ekki bara bestar því þær voru líka prúðastar. Vísir/Diego

Valur og Stjarnan hlutu bæði viðurkenningu KSÍ í ár fyrir háttvísi og prúðmennsku en Drago-stytturnar eru jafnan afhentar í aðdraganda ársþings KSÍ sem fram fer um næstu helgi.

Knattspyrnusamband Íslands segir frá verðlaunum á heimasíðu sinni. Drago-stytturnar eru veittar prúðustu liðunum í efstu deildum karla og kvenna (Bestu deildunum) á grundvelli gulra og rauðra spjalda.

Valur og Stjarnan urðu samkvæmt fréttinni á heimasíðu KSÍ hnífjöfn í Bestu deild karla og fá bæði Drago-styttuna fyrir árið 2023. Drago-styttuna fyrir árið 2023 í Bestu deild kvenna hlýtur Valur.

Samkvæmt upplýsingum úr mótagrunni KSÍ þá voru Valsmenn þó aðeins prúðari. Valsliðið fékk 51 gult spjald og eitt rautt spjald í 27 leikjum í Bestu deild karla. Stjarnan fékk aftur á móti 52 gul spjöld og eitt rautt spjald í 27 leikjum. Liðsstjórn Stjörnunnar fékk 2 gul spjöld en liðsstjórn Vals fékk þrjú gul spjöld og eitt rautt spjald. Spjöld liðstjórna liðanna eru inni í heildartölunni.

Íslandsmeistarar Vals í kvennaflokki fengu aðeins sautján gul spjöld og ekkert rautt spjald í 23 leikjum og því miklu minna en eitt gult spjald í leik. Stjörnukonur fengu reyndar aðeins einu gulu spjaldi meira en Valur.

Bragi G. Bragason og Jón Höskuldsson frá Val tóku við Drago-styttunum úr hendi Klöru Bjartmarz framkvæmdastjóra KSÍ.

Guðmundur Kristjánsson frá Stjörnunni tók við Drago-styttunni úr hendi Birkis Sveinssonar frá KSÍ.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×