Erlent

Gagn­rýndi viðtalsstíl Carlson og sagðist frekar vilja Biden en Trump

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Pútín gaf lítið fyrir viðtalsstíl Carlson þegar hann ræddi við Zarubin og sagðist hafa gert ráð fyrir beittari spurningum.
Pútín gaf lítið fyrir viðtalsstíl Carlson þegar hann ræddi við Zarubin og sagðist hafa gert ráð fyrir beittari spurningum. AP/Sputnik/Kazakov

Vladimir Pútín Rússlandsforseti sagði í viðtali við rússneska sjónvarpsmanninn Pavel Zarubin í gær að hann væri þakklátur Tucker Carlson fyrir viðtalið sem hann tók við forsetann á dögunum en hann hefði ekki fengið allt út úr því sem hann vildi.

Pútín sagði það hafa komið sér á óvart að Carlson hefði veigrað sér við því að spyrja hann „beittra spurninga“ og svipt hann þannig tækifærinu til að gefa beitt svör.

„Ef ég á að vera hreinskilinn þá hélt ég að hann myndi verða aggressívur og spyrja svokallaðra beittra spurninga. Ég var ekki bara undir það búinn heldur vildi ég það, þar sem það hefði gefið mér tækifæri til að svara á sama máta,“ sagði Pútín við Zarubin.

Viðtal Carlson var það fyrsta sem Pútín veitir blaðamanni á Vesturlöndum frá því að Rússar gerðu innrás í Úkraínu en forsetinn varði fjórðungi viðtalsins í að fara yfir sína útgáfu af sögu Rússlands.

Pútín sagði Zarubin að þar sem Rússar ættu ekki í beinu samtali við Vesturlönd ættu þeir að vera þakklátir Carlson fyrir að taka sér hlutverk milliliðs.

Þess ber að geta að fjölmargir miðlar á Vesturlöndum hafa falast eftir viðtölum við Pútín en Carlson, sem var löngum þekktasta andlit Fox News, er sá eini sem hefur haft erindi sem erfiði.

Pútín sagðist einnig hafa verið undrandi á því að Carlson hefði ekki gripið oftar inn í en það var áberandi hvað Carlson leyfði Pútín að fara um víðan völl án þess að koma honum aftur á beinu brautina.

„Satt best að segja þá fékk ég ekki allt sem ég vildi út úr þessu viðtali,“ sagði Pútín.

Pútín ræddi einnig við Zarubin um forsetakosningarnar í Bandaríkjunum og sagðist frekar vildu sjá Joe Biden ná endurkjöri en að Donald Trump næði aftur völdum. 

Zarubin spurði forsetann hvor væri „betri fyrir Rússa“, Biden eða Trump.

„Biden,“ svaraði Pútín um hæl. „Hann er reyndari fyrirsjáanlegri einstaklingur; pólitíkus af gamla skólanum.“ Pútín sagðist hins vegar myndu vinna með hverjum þeim sem Bandaríkjamenn kysu.

Það er ómögulegt að segja hvort Pútín er að vera einlægur í svörum sínum eða hvort um er að ræða tilraun til að grafa undan Biden með því að lýsa yfir stuðningi við hann. Pútín hefur áður verið sakaður um að hafa fyrirskipað aðgerðir til að styðja Trump í aðdraganda forsetakosninganna 2016.


Tengdar fréttir

Hlakkar í Rússum vegna heimsóknar Carlson

Tucker Carlson, fyrrverandi sjónvarpsmaður Fox News, hefur tekið viðtal við Vladimír Pútín, forseta Rússlands. Þetta er fyrsta viðtal forsetans af þessu tagi frá því Rússar hófu innrásina í Úkraínu í febrúar 2022.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×